Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:12:43 (858)

2000-10-19 17:12:43# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:12]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um samkeppnishæfa menntun og nýja stefnu í kjaramálum kennara. Í upphafi þáltill. eru listuð áherslumarkmið hennar sem ég get tekið undir í öllum höfuðdráttum. Það er augljóst mál að auka þarf fjármagn til menntamála en það er ekki einungis nóg að auka fjármagn til þessara mála heldur þarf líka að gera á þeim skipulagsbreytingar og ná fram bæði aukinni almennri menntun og auknu jafnræði til menntunar. Það er alveg hárrétt að fjármagnið eitt segir ekki allt. Það er líka skipulagið sem einnig er vikið að síðar í þessari till. til þál.

Herra forseti. Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni það áhersluatriði sem lagt er hér fram, það er að lækka útskriftaraldur úr framhaldsskólum um eitt til tvö ár.

Ég vil í því sambandi vekja athygli á till. til þál. sem ég flutti ásamt nokkrum fleiri þingmönnum í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í fyrra um 12 ára samfellt grunnnám sem lýtur að mörgu leyti að þeim áherslum sem þarna eru dregnar fram. Í tillögunni er lögð áhersla á að aukin grunnmenntun þjóðarinnar, aukin almenn grunnmenntun þjóðarinnar sé forsenda aukinnar velferðar, aukinnar hagsældar í samfélaginu. Það er jafnframt einn veikasti hlekkurinn í uppbyggingu menntunar hér á landi og þess vegna er nauðsynlegt að taka sérstaklega á þessu.

Ég tel líka, herra forseti, að skipan framhaldsskólanámsins, sem við köllum svo, þessa fjögurra ára framhaldsskólanáms, sé að mörgu leyti barn síns tíma og þær tilraunir sem hafa verið gerðar til að lappa upp á það á síðustu árum tefji í raunninni fyrir frekari framþróun á grunnmenntun í landinu.

[17:15]

Fjögurra ára nám í framhaldsskóla, sem er í rauninni aðfaranám að öðru námi, reynist mörgum að mörgu leyti bæði tilgangslítið og ekki innihaldsríkt til að undirbúa nemendur undir framtíðina, undir atvinnulífið og aukið framtíðarnám. Auk þess sem tíminn þar gæti nýst betur og miklu fyrr til sérhæfðs náms, starfsnáms, tæknináms og háskólanáms, enda er raunin sú að gífurlegt brottfall og tafir eru hjá nemendum í þessu námi.

Þá ber og að horfa til þess, herra forseti, að við höfum hækkað sjálfræðisaldurinn upp í 18 ár sem þýðir að það er ætlun samfélagsins að foreldrar og heimili beri ábyrgð á börnum sínum til þess aldurs og veiti þeim allan þann stuðning og styrk í hinu daglega lífi þeirra og í undirbúningi fyrir framtíðina. Þess vegna ætti það að vera skilyrði að um allt land sé boðið upp á samfellt nám til 18 ára aldurs sem nemendur geti sótt heiman frá sér í sem allra flestum tilvikum. Það ætti að vera undantekning ef svo væri ekki. Hugsið ykkur það sem er að gerast nú á þessum haustdögum að þúsundum saman er ungt æskufólk að fara frá heimabyggð sinni til fjarlægra staða til að sækja nám sjálfu sér til mikils kostnaðar, bæði persónulegs kostnaðar og kostnaðar fyrir það samfélag þar sem þetta unga fólk býr og hefur vaxið upp í, en auk þess sem þetta unga fólk verður að taka það á sig að fá ekki að njóta styrks heimilisins og fjölskyldusamfélagsins til þess að takast á við þessi raunar afdrifaríkustu ár í uppvexti sínum, þ.e. unglings-, æsku- og mótunarárin. Þess vegna tel ég, herra forseti, og vísa til tillögunnar sem ég flutti ásamt fleirum í fyrra og verður endurflutt nú á þessu þingi, um brýna nauðsyn þess að styrkja, efla og taka með allt öðrum hætti á þessu menntunarstigi, aldrinum 16--18 ára, tengja það atvinnulífinu, samfélaginu, fjölskyldulífinu og tengja það líka betur markmiðum menntunar þessara ára, þ.e. að undirbúa þetta fólk til að takast á við sérhæfð störf, sérhæfða menntun og margvíslega framhaldsmenntun að því loknu. Háskólar gætu tekið við nemendum mun fyrr en þeir gera nú og sérnám og sérhæft tækninám væri mun betur komið sem sjálfstætt eða meira og minna sjálfstætt framhald af sterku grunnnámi sem þarna væri. Þess vegna, herra forseti, skýtur það afar skökku við sem snýr að okkur í menntuninni þegar við heyrðum í sumar að það framhaldsnám sem í boði var fyrir ungt fólk 16--18 ára, t.d. á Dalvík, hefði verið fellt niður vegna fjárhagslegra sjónarmiða að langmestu leyti, þetta þótti of dýrt.

Jafnframt kom fram að einmitt í það nám, vélstjórnar- og skipstjórnarnám sem þar fór fram, hefðu sótt skipstjórar í Ólafsfirði sem báru ábyrgð á að draga þar björg í bú og safna auði fyrir þjóðina. En samt þótti ástæða til að skera þetta nám niður. Sama er að segja, herra forseti, um 2. bekk við framhaldsdeildina í Stykkishólmi þar sem allir nemendur eða nánast allir nemendur í því sveitarfélagi óskuðu eftir að fá að taka þar annan vetur í framhaldsnáminu. Það þótti ástæða til að skera það niður og valda þar með miklu raski á högum fólks.

Herra forseti. Við getum svo sannarlega tekið á í menntamálunum.