Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:29:40 (860)

2000-10-19 17:29:40# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson leggur mér stöðugt orð í munn, hugsanir og skoðanir. Hann segir að ég hafi viljað ryðja burt óæskilegum hugsunum og fólki, hugsunum úr menntakerfinu. Ég sagði viðhorfum og það er allt annar handleggur. (ÖS: Vinstri mennsku.) Vinstri mennsku, já. Það er allt annar handleggur.

Ég man heldur ekki til þess að ég hafi nefnt orðið fjarkennsla, það getur vel verið en ekki var lögð nein áhersla á það. Hann segir að ég hafi talað um það, haft hugrekki til þess. Þetta er um það sem hann sagði.

Varðandi minni framlög opinberra aðila í fjárlögum, þá getur það vel verið rétt. Ég hef enga trú á opinberri rannsóknarmennsku. Ég hef enga trú á opinberum rannsóknum eða vísindamennsku. En vísindamennska hefur stóraukist hér á landi. Þökk sé ríkisstjórninni, og þar er ég að tala um Íslenska erfðagreiningu. Þar eru fleiri hundruð vísindamenn að starfa á Íslandi sem ekki gerðu það áður og nýjar rannsóknir á Íslandi kosta milljarða. Og gleyma þessu, Jesús minn. Þetta eru miklu stærri tölur en nokkurn tíma hafa verið í fjárlögum. Þarna er vaxtarbroddurinn. Þegar einstaklingar og fyrirtæki þeirra stunda rannsóknir, það eru hin raunverulegu rannsóknir en ekki opinberar rannsóknir. Ég hef enga trú á þeim, því miður, herra forseti. Það sem við þurfum að gera er að búa til jarðveginn fyrir slíkar rannsóknir. Við gerðum það með lagasetningu um gagnagrunninn mikla og við höfum stuðlað að því að hér eru komin mörg fyrirtæki í þekkingariðnaði og í hugbúnaðargerð. Þau hafa blómstrað á síðustu árum vegna þess að búin hefur verið aðstaða til þess í atvinnulífinu.