Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:31:41 (861)

2000-10-19 17:31:41# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri að vísindi sem kostuð eru af opinberu fé séu annars flokks vísindi en það er það sem hv. þm. er að halda fram. Hv. þm. segir líka að það sé rangt að hann hafi verið að tala um að koma þyrfti burt einhverju fólki úr menntakerfinu.

Herra forseti. Hann talar um að ryðja þurfi burt óæskilegum viðhorfum. Hvernig gera menn það, herra forseti? Með því að ryðja burt þeim sem hafa þessi óæskilegu viðhorf. Þannig er það nú. Við vitum alveg hvað í þessu felst, herra forseti.

Hv. þm. heldur því fram eða ekki er hægt að ráða annað af máli hans en að engu máli skipti hvað mikið kemur af opinberu fé til menntamála. Það liggur bara fyrir í endalausum rannsóknum að bein tengsl eru milli opinberra framlaga til menntamála og hagvaxtar. Hvernig stöndum við í þeim efnum? Það vill svo til að hans eigin ráðherra, hæstv. menntmrh., stóð fyrir því að hér var gefin út skýrsla fyrr á þessu ári sem var gerð á vegum OECD og hét Education at a Glance og þar kemur fram að opinber framlög t.d. í Svíþjóð til menntamála eru 6,8% af landsframleiðslu, í Danmörku eru þau 6,4%, í Noregi eru þau 6,5%, í Finnlandi eru þau lægst, 6,3%. Hvað eru þau mikil á Íslandi, herra forseti? 5,1%. Hvað þyrftum við mikið til að lyfta þessu upp bara um prósent og væri þó enn vel fyrir neðan hin? Sjö milljarða? Hvað jafngildir það miklu? Öllu framhaldsskólakerfinu.

Herra forseti. Þessi þróun hefur orðið til undir forsæti Sjálfstfl. Hvar birtist hún? Hún birtist í lægri framleiðni í atvinnulífinu en annars staðar. Hún birtist í því að þegar íslenskir námsmenn eru prófaðir í samanburði við erlenda námsmenn, t.d. í grunnfögum eins og náttúrufræði og stærðfræði. Hvar eru þeir í röðinni af 29 viðmiðunarþjóðum? Við erum nr. 26. Hver ber ábyrgðina á því, herra forseti? Flokkur hv. þm. Péturs Blöndals og Björns Bjarnasonar menntmrh.