Kynbundinn munur í upplýsingatækni

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:05:14 (866)

2000-10-19 18:05:14# 126. lþ. 14.16 fundur 123. mál: #A kynbundinn munur í upplýsingatækni# þál., SÓ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:05]

Stefanía Óskarsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. hv. þm. Hólmfríðar Sveinsdóttur þess efnis að Alþingi álykti að fela menntmrh. að skipa vinnuhóp sem geri tillögur um hvernig megi auka áhuga á þekkingu stúlkna á upplýsingatækni.

Ég tel að tillaga sú sem hér er á ferðinni sé allra góðra gjalda verð en jafnframt óþörf, þ.e. þessi tillaga er nokkrum árum of seint á ferðinni. Ég tek undir allt það sem kemur fram í grg. hv. þm. Hólmfríðar Sveinsdóttur þar sem rakin er nauðsyn þess að hlutur kvenna sé sem mestur í upplýsingatækninni en jafnframt vil ég gera grein fyrir því hvers vegna ég tel óþarft að Alþingi álykti að fela menntmrh. að skipa slíkan vinnuhóp.

Ástæðan er þessi: Á þessu ári hefur mikið starf verið unnið í víðtæku samstarfi sem nú á sér stað meðal ráðuneyta, einkafyrirtækja, stofnana í þjóðfélaginu og annarra sem miðar einmitt að því að koma þessum málum til betri vegar.

Í kjölfar ráðstefnunnar Konur og lýðræði sem haldin var sl. október, þ.e. fyrir rúmu ári, komu fram margar hugmyndir að verkefnum sem öll miða að því að auka hlut kvenna á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Skrifstofa jafnréttismála og Háskóli Íslands voru framkvæmdaraðilar að þessari ráðstefnu og áttu frumkvæði að því, eins og réttilega kemur fram í grg. með þáltill., að setja á laggirnar átaksverkefni sem miðar að því að jafna námsval kynjanna. Forsrn. veitti verkefninu strax mikinn stuðning. Sama er að segja um félmrn., menntmrn. og iðn.- og viðskrn. Einnig komu til liðs við þetta verkefni Eimskipafélagið, Gallup-Ráðgarður, Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Félag íslenskra framhaldsskóla og Stúdentaráð HÍ og e.t.v. Sjóvá-Almennar, Verslunarmannafélag Reykjavíkur og fleiri aðilar. Þessu verkefni um jöfnun á námsvali kynjanna er ætlað að sjá til þess að hlutur kvenna í þeim greinum þar sem þær hafa ekki verið margar verði aukinn og þá sérstaklega í upplýsingatækni og verkfræðigreinum.

Hv. þm. gat þess í máli sínu að ekki hefði mikið áunnist, að vandamálið hefði verið skilgreint m.a. á ráðstefnu sem forsrn. stóð fyrir í apríl sl. í samvinnu við Skýrslutæknifélag Íslands, Rannsóknarstofu í kvennafræðum, Jafnréttisráð, Félag tölvunarfræðinga, jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, menntmrn. og Verkfræðingafélag Íslands, um konur og upplýsingatæknina. Á þeirri ráðstefnu komu fram margvíslegar upplýsingar og fjölmörg erindi voru haldin um stöðu kvenna á hinum ýmsu sviðum upplýsingatækninnar. Við undirbúning ráðstefnunnar var hannaður vefur sem hv. þm. gat jafnframt um í ræðu sinni. Þar voru teknar saman ýmsar upplýsingar um stöðu kvenna á þessu sviði, reynslusögur kvenna sem höfðu haslað sér völl á þessu sviði o.s.frv.

Þessar upplýsingar og undirbúningsvinnan fyrir ráðstefnuna hefur nýst í átaksverkefninu sem ég gat fyrr um. Þar hefur verið skipuð verkefnisstjórn sem hefur í bígerð að ná til háskólastúdenta en jafnframt til framhaldsskólanema og grunnskólanema. Það skal unnið m.a. í samráði við námsráðgjafa, fjölmiðla og ýmsa aðra sem veitt geta liðsinni í þessu máli. Hér er um mjög metnaðarfullt átak að ræða og verkefninu verður formlega ýtt úr vör nk. fimmtudag 26. október. Á kynningarfundi sem þá verður haldinn verður gerð grein fyrir þessu verkefni. Nú þegar eru farin af stað sérstök verkefni sem miða t.d. að því að að efla konur innan tölvunarfræðinnar, í verkfræði innan Háskóla Íslands og ýmislegt annað sem nefna má síðar.

Ég kom aðeins inn á það áðan að hv. þm. Hólmfríður Sveinsdóttir hefði sagt að lítið hefði áunnist. Ég vil mótmæla því. Ég tel þvert á móti að þessum málum hafi mjög miðað áfram og umrædd ráðstefna sem ég gat um áðan, sem haldin var sl. apríl, var afar fjölsótt, vakti mikla athygli fjölmiðla og e.t.v. má hugsa sér að sú mikla athygli hafi orðið til þess að fleiri konur en nokkru sinni fyrr hafa nú sótt um nám í bæði tölvunarfræði og verkfræðigreinum í Háskóla Íslands. Það má minna á það að t.d. í byggingaverkfræði eru nú konur í meiri hluta og ég held að kynjahlutfallið í vélaverkfræði sé mjög svipað.

Að sjálfsögðu er margt sem þarf að vinna að og ég tel að sú vinna sé þegar komin í gang. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að menntmrn. skipi sérstaka nefnd um þetta og vil jafnframt geta þess að á vegum menntmrn. hefur um nokkurra ára skeið verið unnið að því að skilja með hvaða hætti börn, þ.e. drengir og stúlkur, tileinka sér námsefni og finna hugsanlegar úrbætur á því sviði. Innan menntmrn. hefur jafnframt verið í gangi vinna sem miðar að því að taka saman upplýsingar um stöðu kvenna í vísindum. Sú nefnd mun fljótlega skila af sér niðurstöðum. Af þessari upptalningu má sjá að um langt árabil hefur verið unnið að þessum málum innan menntmrn. Ég bendi einnig á átaksverkefnið og þá fjölmörgu aðila, bæði opinberar stofnanir, ráðuneyti og einkafyrirtæki sem koma að þeirri vinnu. Ég býst við góðu samstarfi við fjölmiðla hvað þetta varðar.

Ég tek undir það sem kom fram í meginmáli hv. þm. Hólmfríðar Sveinsdóttur, að hér er um mikilvæg markmið að ræða en ég sé enga ástæðu til að menntmrn. skipi sérstaka nefnd til að hafa forgöngu um vinnu í þessu máli. Vinnan er þegar farin af stað og ekki bara á einum stað heldur á mörgum stöðum.