Kynbundinn munur í upplýsingatækni

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:14:15 (868)

2000-10-19 18:14:15# 126. lþ. 14.16 fundur 123. mál: #A kynbundinn munur í upplýsingatækni# þál., SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:14]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka fyrri orð mín. Það starf sem vinna á í þessu átaksverkefni um jafnara námsval kynjanna miðar jafnframt að því að ná til yngstu hópanna. Það eru margar leiðir að því markmiði. Að þessu þarf að vinna m.a. í samvinnu við námsráðgjafa, og einnig með því að sýna fyrirmyndir. Þess vegna er mikilvægt að fá fjölmiðla með sér í lið. Það er mikilvægt að hafa alls konar uppákomur þar sem konur sem sinna þessum störfum eru í sviðsljósinu.

Ég tel að þetta verkefni og fleiri slík verkefni, ég get reyndar nefnt fleiri dæmi, eins og t.d. verkefni sem FBA stendur fyrir en það er samantekt á jafnréttisnámsefni fyrir grunnskóla, sem miða að því með einum eða öðrum hætti að ná til yngstu kynslóðarinnar og breyta þannig hugarfari hennar. Auðvitað þarf svo einnig að ná til foreldra sem skipta vissulega miklu máli í þessu sambandi.