Kynbundinn munur í upplýsingatækni

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:17:42 (871)

2000-10-19 18:17:42# 126. lþ. 14.16 fundur 123. mál: #A kynbundinn munur í upplýsingatækni# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta andsvar staðfestir fyrst og fremst það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. ,,Allt er í fínum gangi,`` sagði hv. þm. Það vill svo til að fyrir skömmu síðan var ég að yfirfara mál sem ég flutti á 121. þingi um fjarkennslu, þ.e. um að þar yrði mótuð stefna. Og ég verð að segja, herra forseti, að ef menntmrh. og fylgismenn hans hér í salnum hefðu tekið því máli öðruvísi en þeir gerðu, væru þau mál í svolítið betra ástandi en þau eru nú.

Ég get nefnt fleira. Ég ætla að nefna tillögu um stöðu drengja og stúlkna í grunnskólum. Varðandi það mál var samþykkt þáltill. sem ég var 1. flm. að, um könnun í þeim efnum sem átti að leiða til þess að farið yrði faglegar í að reyna að jafna stöðu kynjanna í grunnskólanum. Síðast þegar ég frétti (Gripið fram í.) hafði sú nefnd haldið þrjá fundi og skilaboðin voru þau að ekkert frekar þyrfti að gera, þetta væri allt í svo fínu lagi.

En ég segi, herra forseti, að þetta er ekki í fínu lagi. Það er illt í efni þegar menn eru eins hrokafullir og mér finnst koma hér fram er þeir segja: ,,Þetta er í svo fínu lagi að það þarf ekkert að gera. Við þurfum ekki einu sinni að hlusta á þá sem vit hafa á málum.`` Og það er illt í efni, herra forseti.