Kynbundinn munur í upplýsingatækni

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:30:48 (879)

2000-10-19 18:30:48# 126. lþ. 14.16 fundur 123. mál: #A kynbundinn munur í upplýsingatækni# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er tilefni til að fagna framkominni þáltill. hv. þm. Hólmfríðar Sveinsdóttur því eins og fram kom í máli hennar er afar brýnt að grípa strax til aðgerða gegn kynjabundnum mun í þeim sívaxandi geira atvinnulífsins er lýtur að netinu og upplýsingatækni. Það gerir tillaga hv. þm. Hólmfríðar Sveinsdóttur svo sannarlega og ber að fagna henni og veita framgang á hinu háa Alþingi. Tölurnar tala sínu máli um kynjamuninn strax hjá börnum í notkun á netinu og við notkun á tölvum. Þessi munur leiðréttir sig ekki sjálfkrafa og aðgerða er þörf, t.d. að grafist sé fyrir um orsakir þess að áhugi stúlkna sé svo miklu minni en drengja á tölvum, tölvuleikjum og notkun á netinu.

Mikilvægasti þátturinn lýtur að menntakerfinu og gerð námsefnis. Það er tækifæri til að grípa inn í áður en kynjamunur við notkun netsins verður að rótgrónu vandamáli í samfélaginu.

Tölvukunnátta opnar fólki möguleika til að nýta sér tækifæri framtíðarinnar í atvinnulífinu og í hinu nýja hagkerfi er tölvulæsi algjört grundvallaratriði til að einstaklingar séu gjaldgengir á vinnumarkaði eins og hv. þm. Hólmfríður Sveinsdóttir gat um í grg. með tillögu sinni. Ef stór hópur kvenna tileinkar sér ekki tölvutæknina leiðir það til aukins ójafnaðar kynjanna á vinnumarkaði og er nóg fyrir. Það má aldrei gerast og því er þörf róttækra aðgerða og þessi tillaga gefur tóninn í þeim aðgerðum.