Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:59:55 (888)

2000-10-19 18:59:55# 126. lþ. 14.18 fundur 137. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stjórnir sparisjóða) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:59]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef nokkrar efasemdir um þann málatilbúnað sem hér er hafður í frammi af hv. 1. þm. Reykv. Vilhjálmi Þ. Vihjálmssyni og flokkssystrum hans um þær breytingar á fyrirkomulagi um stjórnarkjör í sparisjóðum sem hér er gerð tillaga um. Mér finnst satt að segja þessi tillaga vekja miklu fleiri spurningar en hún svarar. Það er að sönnu alveg hárrétt hjá 1. flm. að miklar breytingar hafa orðið á hinu fjárhagslega og viðskiptalega umhverfi sparisjóðanna og allra annarra fjármálastofnana á síðustu árum. Það er líka rétt að ákveðnar sögulegar ástæður liggja að baki þessu fyrirkomulagi um hlutdeild sveitarfélaga í stjórnum sparisjóða.

En við skulum hins vegar glöggva okkur áður en lengra er haldið á fyrirkomulagi, eignarhaldi og uppbyggingu sparisjóðanna í dag. Ég held það væri nær lagi að hið háa Alþingi og löggjafarvaldið færi yfir það frá a til ö hvernig þeim málum væri skynsamlegast að skipa fremur en að taka einn þátt út úr eins og hér er gert, þátt sem mér vitanlega hefur ekki þvælst fyrir rekstri sparisjóða, eins og raunar hv. þm. kom sérstaklega inn á. Fulltrúar sveitarstjórna hafa eðli máls samkvæmt sýnt þar ábyrgð og festu eftir því sem ég best veit.

En sparisjóðirnir eru þannig saman settir að þar eru, eins og hér kom fram, stofnfjáreigendur mjög mismunandi margir eftir hinum fjölmörgu sparisjóðum hringinn í kringum landið. Þeim var fjölgað verulega í mörgum sparisjóðum á síðustu árum, en lengst af voru þeir í mörgum stórum sparisjóðum örfáir tugir. Lögin eru ekkert mjög skýr heldur hvað það varðar hvernig þeir eru valdir. Það er ekki með stofnfjáreigendur í sparisjóðum eins og hlutafélagabanka, að þessir hlutir liggi á markaði og áhugasamir geti hreinlega óskað eftir því að fá að leggja fé í sparisjóði, vera einn stofnfjáreiganda. Nei, það er þannig raunverulega að sparisjóðsstjórnirnar og aðalfundur ábyrgðarmanna sparisjóðsins taka um það ákvörðun hverjir mega.

Það var óneitanlega þannig á árum áður, þó það hafi sem betur fer breyst til betri vegar, að það fór dálítið eftir flokkslínum og pólitískum flokkslínum í hinum einstöku sveitarfélögum hver væri í hópi stofnfjáreigenda og ábyrgðarmanna og hver ekki. Sums staðar gekk það svo langt að nánast einlitur hópur ábyrgðarmanna tiltekinna stjórnmálaflokka réð þar ríkjum. Í því ljósi gefur augaleið að sparisjóðirnir af þessum sökum einum eru allt annars eðlis en hinir almennu viðskiptabankar.

Ég sagði að það væru sögulegar ástæður fyrir því að sveitarfélögin komu að stjórn sparisjóðanna. Í einstaka tilfellum var það þannig að sveitarfélögin höfðu frumkvæði að stofnun þeirra. Í sumum tilfellum komu þau að stofnun þeirra. Í öðrum tilvikum studdu þau mjög stofnun þeirra, það þótti mikilvægt á þeirri tíð að öflug fjármálastofnun væri í viðkomandi byggðarlagi, og lögðu þannig talsvert af mörkum, ekki endilega alltaf fé, þó í sumum tilfellum það, til þess að gera þá að veruleika. Það er kannski þess vegna sem í samþykktum margra sparisjóða eru ákvæði þess efnis að komi til slita á þessum stofnunum, og um það getur raunar í 70. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og sparisjóði, skuli þeim fjármunum ráðstafað sem eftir liggja þegar stofnfjáreigendum hefur verið greiddur til baka sinn hlutur --- því þeim er ekki heimilt að fá krónu meira en þeir lögðu fram --- þá skuli því ráðstafað, þ.e. eigið fé sparisjóðanna --- og sem betur fer eru margir sparisjóðir það stöndugir að þeir búa yfir talsverðu eigin fé --- samkvæmt ákvæðum samþykkta hvers sparisjóðs fyrir sig. Í mörgum tilfellum er það þannig að þessir fjármunir, komi til slita sparisjóðanna, þetta eigið fé sparisjóðanna þegar frá hefur verið dregið og endurgreitt stofnfjáreigendum í sumum tilfellum hundruð milljóna króna, skuli gjarnan renna til tiltekinna málaflokka heima í héraði. Í sumum tilfellum eru nefnd þar sérstaklega líknar- og menningarmál. Tengingin við heimahéraðið og byggðarlagið er því í langflestum tilfellum mjög skýr, klár og ákveðin.

Það er því ekki mjög nákvæmt sem er að finna í greinargerð flutningsmanna þar sem kveðið er á um það og sköpuð sú hliðstæða að sömu lögmál gildi um sparisjóði og ábyrgð stofnfjáreigenda og hlutafjáreigenda í viðskiptabönkum. Þannig er það ekki og ég hef rakið nokkur tilvik sem undirstrika það.

Hér er gengið í raun svo langt að tala um að það að skipan stjórna sparisjóðanna samkvæmt gildandi lögum sé óeðlileg og óholl bæði fyrir sveitarfélögin og sparisjóðina. Mér finnst þarna satt að segja talsvert fast að orði kveðið, ekki síst í ljósi bakgrunns 1. flm., hv. 1. þm. Reykv. Ég hef ekki orðið var við það hringinn í kringum landið að sveitarstjórnirnar hafi haft af því ama að koma nærri rekstri þessara fjármálastofnana. Þvert á móti hafa þessir aðilar gjarnan styrkt hvor annan. Þannig er það enn eftir því sem ég best veit í fjölmörgum byggðarlögum hringinn í kringum landið.

Ég sé því ekkert í augnablikinu sem kallar á þessa einstöku breytingu á stjórnskipan sparisjóðanna, en undirstrika þó að ég er til viðræðu um að menn fari yfir hlutverk sparisjóðanna í nýju umhverfi fjármála- og bankaviðskipta og skoði hvernig þeim verði þar best fyrir komið.

Ég held að starfsemi þeirra sé mjög mikilvæg nú á síðustu og verstu tímum, ekki síst í ljósi þess að stóru viðskiptabankarnir eru að renna saman. Samkeppni er að minnka á þessum markaði og þess vegna hef ég litið á sparisjóðina sem snaran þátt í þessu. Það er hins vegar önnur saga sem ég ætla ekki að fara yfir hér.

Ég vil þó segja það eitt að ég hefði viljað sjá sparisjóðina leika stórt hlutverk í því sem átti að vera tilraunir til þess að hagræða og einfalda okkar bankakerfi en viðhalda jafnframt virkri samkeppni. Þar var þeim ýtt til hliðar og þeir skildir eftir. Það er kapítuli sem út af fyrir sig á ekki við þessa umræðu.

Herra forseti. Ég vænti þess að nefnd fari yfir þetta mál og ég trúi því að hún komist að þeirri niðurstöðu að þessi ráðstöfun ein og sér er ekki það fyrsta sem ber að gera í málefnum sparisjóðanna í landinu. Ég held þvert á móti að á meðan núgildandi lög eru eins og þau eru þá sé það í mjög réttu samræmi og eðlilegum samhljómi við annan anda þessara laga, nefnilega nátengingu í starfsemi sparisjóðanna og viðkomandi byggðarlaga.