Viðskiptabankar og sparisjóðir

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 19:17:12 (891)

2000-10-19 19:17:12# 126. lþ. 14.18 fundur 137. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stjórnir sparisjóða) frv., Flm. VÞV (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[19:17]

Flm. (Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson beindi spurningu til mín. Nei, ég veit ekki um eitt einasta mál sem hefur komið upp í starfsemi sparisjóða sem hefur valdið einhverjum fjárhagslegum skaða eða öðrum skaða hjá þeim sveitarstjórnum sem eiga aðild að sparisjóðunum. Það var ekki ástæðan fyrir því að ég flyt þetta frv. Ég er búinn að segja það einu sinni ef ekki tvisvar hverjar grunnástæðurnar séu fyrir því þannig að ég þarf ekki að ítreka það.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. að getið er sérstaklega um það í lögum um sparisjóðina að verði um slit að ræða muni peningarnir renna til viðkomandi sveitarfélaga. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert, ekki veitir þeim af sumum að fá meiri fjármuni í sveitarsjóði sína. Ég tengi það heldur ekki saman. En slíkt ákvæði má heldur ekki vera til þess að sveitarstjórnir sem hlut eiga að máli beini viðskiptum vegna þessa ákvæðis til þeirra stofnana án þess að ástunda eðlilega og heiðarlega viðskiptahætti.

Það getur vel verið að frv. til breytingar þurfi ekki vegna þess að nú vita allir að í nánd er að sparisjóðunum verði breytt í hlutafélag og það segir sig sjálft að þá fara væntanlega fulltrúar sveitarfélaganna út, nema sveitarfélögin gerist hluthafar í viðkomandi sparisjóðum, hver veit. En það er auðvitað mál sem væri þarft að ræða og verður örugglega rætt á hinu háa Alþingi hvernig á að standa að þeirri breytingu að gera sparisjóðina, eins og þeir eru uppbyggðir með sínum stofnfjáreigendum, að hlutafélagi.