Löggæsla á Akranesi og í Borgarnesi

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:12:53 (899)

2000-10-30 15:12:53# 126. lþ. 15.1 fundur 62#B löggæsla á Akranesi og í Borgarnesi# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Árum saman hafa löggæslumál á Vesturlandi, þ.e. á svæði sýslumannanna á Akranesi og í Borgarnesi, verið í ólestri. Það hefur ekki verið hægt að nýta lögreglumenn sem hafa verið ráðnir til starfa til þess að sinna svæðinu á eðlilegan hátt. Á Akranesi eru 11 lögreglumenn, 9 af þeim ganga vaktir eingöngu á Akranesi og svæðinu umhverfis bæinn. En í Borgarnesi, þar sem eru 8 stöðugildi og einungis 7 skipuð, ganga fimm lögreglumenn vaktir. Þeir þurfa að sjá um svæðið allt frá Hvalfjarðarbotni upp á Holtavörðuheiði, að Hítará og upp á Langjökul.

Árum saman hafa menn gagnrýnt þetta fyrirkomulag. Hver dómsmrh. á fætur öðrum hefur haldið því fram að hann ætlaði sér að leysa þessi mál en þau hafa aldrei verið leyst.

Er hæstv. dómsmrh. að vinna að því að koma á eðlilegu skipulagi varðandi nýtingu lögreglumanna á þessu svæði?

Hvenær munum við sjá breytingu sem hefur það í för með sér að hægt verði að nýta löggæslumenn eðlilega, þannig að t.d. sé hægt að nýta lögreglumenn á Akranesi til að sinna löggæslu bæði inn að Hvalfjarðarbotni og á öllu svæðinu frá Akranesi til Borgarness? Eða hvaða annarra úrræða hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að grípa til svo leysa megi þau vandamál sem lengi hafa verið til staðar á þessu svæði?