Löggæsla á Akranesi og í Borgarnesi

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:14:48 (900)

2000-10-30 15:14:48# 126. lþ. 15.1 fundur 62#B löggæsla á Akranesi og í Borgarnesi# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fsp. enda vissulega þörf á að ræða ýmislegt sem snertir þetta svæði. Það hafa orðið ákveðnar breytingar, t.d. með tilkomu Hvalfjarðarganganna, sem gera það að verkum að segja má að umferðarþungi hafi aukist og e.t.v. sé þörf á meira eftirliti þarna í kring. Hins vegar er í gildi samstarfssamningur milli sýslumannsembættanna í Borgarnesi og á Akranesi. Þeir hafa reynt að samnýta liðin eftir því sem kostur er. Vafalaust er þó rétt að betur mætti gera í þeim efnum. Ríkislögreglustjóraembættið hefur einmitt haft forgöngu um að fá embætti um allt land til að samnýta betur mannafla lögreglunnar og ég tel að það skipti mjög miklu máli.

Ég tel rétt að hafa augun opin fyrir því sem er að gerast á þessu svæði. Við vitum að í kringum Borgarnes er mikið af sumarbústöðum, veiðiám og öðru slíku sem kallar á mikla umferð, sérstaklega að sumrinu. Ég kom reyndar með þá tillögu á sínum tíma til sveitarfélaganna á þessu svæði að kannski væri rétt að breyta eitthvað umdæmamörkum en sú tillaga fékk ekki góðar undirtektir.