Gengisþróun íslensku krónunnar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:20:41 (905)

2000-10-30 15:20:41# 126. lþ. 15.1 fundur 63#B gengisþróun íslensku krónunnar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Gengi íslensku krónunnar hefur sigið hratt að undanförnu. Það væri nær að orða það svo að það hafi fallið eins og í viðskiptum sl. föstudag þegar gengið hafði fallið um meira en hálft prósentustig þegar viðskiptum dagsins lauk. Frá áramótum hefur gengið lækkað um 7,6% og yfir 9% frá því að það var hæst á vormánuðum sl.

Frá því að fjárlagafrv. sjálft var lagt fram um síðustu mánaðamót hefur gengi íslensku krónunnar lækkað um 2,7% miðað við lokagengi sl. föstudag. Í ljósi þessa, herra forseti, vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. --- og ég tel ekki síður ástæðu til að hæstv. ráðherra svari því á Alþingi en í viðtölum við fjölmiðla: Hyggst ríkisstjórnin bregðast við afleiðingum þessarar gengislækkunar krónunnar, svo ekki sé talað um ef þessi þróun á eftir að halda áfram? Væntanlega er óþarfi að vitna til þess hér hversu afdrifarík slík breyting er þegar orðin og mundi verða eftirleiðis, hvað varðar verðbólgustigið og forsendur kjarasamninga svo að aðeins tvennt sé nefnt.

Ég tel eðlilegt, herra forseti, að hæstv. fjmrh. bregðist a.m.k. við að því leyti að hann gefi þinginu svör hvað varðar þetta: Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við afleiðingum þess gengisfalls sem þegar er orðið eða hyggst ríkisstjórnin bregðast við?