Fráveitumál sveitarfélaga

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:30:32 (912)

2000-10-30 15:30:32# 126. lþ. 15.1 fundur 64#B fráveitumál sveitarfélaga# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tel að þær upplýsingar sem hér liggja fyrir gætu leitt til þess að hægt væri að leysa þessi verkefni með miklu minni tilkostnaði en við töldum áður. Ég held að það væri jafnvel hægt að spara heilan milljarð fyrir sveitarfélögin með þessum hætti. Mér sýnist að þessar niðurstöður bendi til þess að það sé hægt að nýta svokallaða fyrsta stigs hreinsun sem felur í sér einungis grófa síun og síðan að leiða þetta út fyrir lægstu fjörumörk. Þetta eru allt önnur viðhorf en voru uppi fyrir nokkrum árum og ég held þess vegna að það sé einboðið að menn ráðist í þetta.

En spurning mín til hæstv. umhvrh. var m.a. þessi: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þeir menn sem hafa staðið fyrir þessum rannsóknum fái fjármagn til þess að halda þeim áfram? Ég spyr vegna þess að þetta hafa verið eins konar kaffitímarannsóknir. Þessir ágætu rannsóknarmenn Vestfirðinga hafa verið að vinna þetta með öðrum verkefnum og þeir hafa ekki fengið nægilegan skilning af hálfu fjárveitingavaldsins. Ég spyr þess vegna: Ætlar hæstv. ráðherra í ljósi þessa að beita sér fyrir auknum framlögum nú þegar til þess að hægt sé að kanna hvort ekki sé hægt að nota þessar aðferðir sem víðast við Ísland?