Tilkynningarskylda olíuskipa

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:41:40 (922)

2000-10-30 15:41:40# 126. lþ. 15.1 fundur 66#B tilkynningarskylda olíuskipa# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Á umliðnum árum hefur mikið verið fjallað um mengun hafsins og vernd strandlengju Íslands vegna sérstöðu landsins, útflutnings og hreinleika þeirra afurða sem við flytjum frá landinu.

Það eru líklega ein þrjú ár síðan samþykkt var þáltill. sem ég lagði fram um tilkynningarskyldu olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning. Þessi þáltill. var samþykkt svohljóðandi í samgn.:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu, m.a. heimildir til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar. Reglurnar nái einnig til olíuskipa í siglingum milli hafna hér á landi.``

Nú er það nokkuð óljóst hvernig eigi að halda á þessum málum á milli ráðuneyta, þ.e. dóms-, samgöngu- og umhverfismála. Í framhaldi af þessu sem ég las hér áðan var skipuð nefnd af hæstv. samgrh. 18. febrúar 1998 til að fjalla um þessi mál. Ég verð að segja að mig er nokkuð farið að lengja eftir skilum þessarar nefndar á þessu þýðingarmikla hagsmunamáli. Flest önnur ríki sem telja sig eiga hagsmuna að gæta varðandi hreinleika sjávar og stranda hafa sett reglur sem afmarka og takmarka siglingaleiðir olíuskipa og skipa sem sigla með hættuleg efni.

Vil ég því beina fyrirspurn minni til hæstv. samgrh.:

Hvað líður störfum þessarar nefndar?