Tilkynningarskylda olíuskipa

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:44:50 (924)

2000-10-30 15:44:50# 126. lþ. 15.1 fundur 66#B tilkynningarskylda olíuskipa# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Málið er náttúrlega mjög alvarlegt og brýnt með tilliti til þess að þau kaupskip sem koma hingað til landsins hafa stækkað, þau nota meiri sjóballest, þau eru óbundin af því að mega ekki dæla út sjóballest með ströndum fram og jafnvel í höfnum. Það er ekkert sem bannar það nú.

[15:45]

Kanadamenn hafa hins vegar tekið upp mjög skýrar reglur um þetta atriði. Áður en skip með sjóballest koma inn í kanadíska landhelgi og ætla að fara að dæla henni út, verða þau að tilkynna þarlendum yfirvöldum um hvernig málin standa með sjóballestina. Eins er þeim bannað að dæla út sjóballest við strendur landsins nema í svo og svo mikilli fjarlægð.

Það er ljóst að hér hefur sjóballest frá kaupskipum oft og tíðum verið dælt í hafnir og það hefur valdið verulegri mengun sem menn hafa verið nokkuð undrandi á hvernig hafi til komið, nefni ég þá t.d. Elliðaárnar.