Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:53:41 (930)

2000-10-30 15:53:41# 126. lþ. 15.91 fundur 68#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér fer einmitt fram grundvallarumræða um störf þingsins. Þetta snertir sjálfan kjarna þess sem þingræðið byggir ekki síst á, þ.e. rétt þingmanna til að krefja upplýsinga, spyrja hæstv. ráðherra út úr og veita framkvæmdarvaldinu þannig aðhald. Ég tel mjög alvarlegt ef sú venja er smátt og smátt að skapast að þrátt fyrir að búið sé að festa mál á dagskrá þingsins með formlegri fsp., tillögu eða með öðrum hætti, þá geti ráðherrar látið eins og ekkert sé, haldið áfram að vinna að málinu og jafnvel tekið ákvarðanir eða aðhafst þannig að forsendur verði breyttar þegar fsp. er svo loksins svarað eftir dúk og disk.

Ég lít svo á að ef mál er á hreyfingu þegar óskað er eftir upplýsingum um það á þinginu með formlegri fsp. þá beri mönnum skylda til að svara þeirri fsp. áður en frekar er aðhafst í málinu. Þannig tel ég að þessi samskipti eigi að vera. Alþingi getur síðan metið hvort svörin eru fullnægjandi eða hvort tilefni er til frekari aðgerða af hálfu þingsins. Hér er um að ræða einhvern mikilvægasta, mér liggur við að segja helgasta rétt þingsins og þingmanna, þ.e. réttinn til að krefja upplýsinga og spyrja ráðherra út úr. Ég held að í þessu máli hafi verið ansi mikil hreyfing á hlutunum og greinilegt, m.a. af uppkomu hæstv. félmrh., að ýmsum er órótt, enda von ef ríkisstjórnin ætlar að nota bága fjárhagsstöðu sveitarfélaganna á Vestfjörðum vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis til að pína þau til að láta af hendi eina helstu eign sína.