Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 16:00:13 (934)

2000-10-30 16:00:13# 126. lþ. 15.91 fundur 68#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er mikill talsmaður þess að þingið hafi rétt til að kalla eftir upplýsingum um mál sem eru á döfinni hjá framkvæmdarvaldinu. Hins vegar veit ég ekki hvort ég hef skilið rétt umræðuna um að það sé virkilega ætlun manna að hægt sé að frysta mál í meðförum framkvæmdarvaldsins með því að leggja fram fyrirspurn á Alþingi. Þó að ég sé mikill þingræðissinni finnst mér það allt of langt gengið því að t.d. þetta mál kemur til umræðu á sínum tíma og afgreiðslu í tengslum við heimildir eða fjárframlög enda hefur það komið fram að það stendur til að svara fyrirspurn um málið. En ég tek undir með hæstv. fjmrh. með það að ég hlýt að hafa misskilið eitthvað ef það er ætlunin að með því að leggja fram fyrirspurn á Alþingi sé hægt að stöðva mál í meðförum framkvæmdarvaldsins. Ég held ég hljóti að hafa misskilið eitthvað í umræðunni.