Svör við fyrirspurnum

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 16:02:14 (936)

2000-10-30 16:02:14# 126. lþ. 15.91 fundur 68#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherrar og þess vegna hv. formaður fjárln. ættu ekki að vera alveg svona sperrtir í þessu máli. Ég held að hlutur þeirra í því sé ekki þess efnis að þeir hafi efni á því að koma hingað upp og vera með útúrsnúninga. Enginn er að halda því fram að með því að leggja fram fyrirspurn á Alþingi sé almennt framkvæmdarvald tekið af ráðherrum. Það hefur enginn gert nema þá e.t.v. að hæstv. fjmrh. skildi umræðuna þannig og er hann þá vonandi einn um það.

Hitt er jafnljóst að ef lögð er fram fyrirspurn um mál og síðan stendur Alþingi frammi fyrir orðnum hlut, kannski fjórum vikum síðar, hvert er þá búið að fara með rétt þingmanna til að fá umræður um mál og fá heiðarleg svör? Er það ekki það sem er að gerast hér? Á meðan fyrirspurnin liggur hér og er ósvarað eru ráðherrarnir, og það liggur við að maður fari að halda öll ríkisstjórnin, með hnúana á sveitarfélögunum á Vestfjörðum um að svara.

Það liggur alveg fyrir og við höfum í höndum bréf um það hvernig verið er að þjarma að sveitarfélögunum á Vestfjörðum til að láta þessa eign sína, ein sveitarfélaga í landinu, upp í skuldir sínar vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis.

Þetta mál, herra forseti, þarf greinilega miklu meiri umræðu en gefst í þessum tíma og í einum fyrirspurnatíma sem verður á miðvikudaginn. Það er því mjög líklegt, herra forseti, að Alþingi hafi ekki séð það síðasta af þessu máli.