Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 16:13:27 (939)

2000-10-30 16:13:27# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það er dálítið um liðið síðan það mál sem hér er verið að ræða var fyrst rætt. Ég hafði svo sem ekki blandað mér mikið í þá umræðu fyrr en í nokkrum andsvörum sem komu þar fram og ummælum sem hafa komið fram annars staðar út af því frv. sem hér er flutt, sem hv. þm. Pétur Blöndal viðhafði bæði á Alþingi í umræðu utan dagskrár um málefni aldraðra og öryrkja og eins í ákveðnum sjónvarpsþætti.

Ég er í nokkrum vanda hvernig ég ætti að ræða málið nú þegar það kemst loksins á dagskrá vegna þess að hv. þm. er með fjarvist í dag. Hann er erlendis á vegum þingsins. Mig skortir þekkingu á því hvernig má ræða þau mál á hinu háa Alþingi. Mér er mjög illa við að ræða þau mál að þingmanninum fjarverandi en ég mun að sjálfsögðu koma inn í þá umræðu á eftir og vitna til nokkurra ummæla sem þar hafa fallið sem urðu kveikjan að því að ég óskaði eftir að taka til máls og ræða þessi mál.

[16:15]

Mér fannst með öðrum orðum það ekki vera Alþingi sæmandi að héðan úr ræðustól Alþingis væru sögð þau orð sem þar voru sögð um aldraða og öryrkja þar sem menn voru hálfpartinn að leiða líkur að því að vandræði margra í þessum þjóðfélagshópum væru hreint og beint vegna óreglu. Mér finnst mjög sárt að þurfa að sitja undir því þegar maður þekkir marga í þessum þjóðfélagshópum, bæði aldraða og ég tala nú ekki um öryrkja, sem hafa það ekki nógu gott á þeim bótum sem hið háa Alþingi skammtar eða ríkisstjórn er umsagnaraðili um. Þetta kom mér verulega á óvart og varð kveikjan að því að ég ákvað að koma í ræðustól.

Töluvert stór hluti aldraðra hefur það slæmt í efnalegu tilliti og mjög stór hluti öryrkja er lítt efnum búinn og á verulega undir högg að sækja í þessu þjóðfélagi á þeim bótum sem þeim eru skammtaðar. Það má segja að þessir hópar eigi verulega bágt í þjóðfélaginu. Þessir þjóðfélagshópar eiga að fá stóraukna aðstoð frá samfélaginu hvað varðar þessa lægstu og lélegustu taxta. Þær strípuðu bætur sem þessir hópar verða að skrimta á valda hreint og beint útskúfun úr velmektarsamfélaginu. Þetta er aðskilnaðarstefna sem er í raun siðlaus og hættuleg og maður getur spurt sig að því hvernig t.d. börn öryrkja eiga að hafa nokkra möguleika á að taka þátt í þjóðfélaginu eins og aðrir, t.d. íþróttalífi, menningarstarfsemi, skólastarfi o.s.frv., öryrkja sem hafa kannski verið öryrkjar frá fæðingu og hafa ekki getað unnið sér inn lífeyrisréttindi og fá bara strípaða taxta frá Tryggingastofnun. Hvernig eiga þær rúmlega 50 þús. kr. að duga fyrir þetta fólk til þess að lifa með reisn í þessu velmektarþjóðfélagi og hvernig eiga þeir að geta skilið að það sé ekki hægt að láta smábrauðmola falla af borðinu frá hendi ríkisvaldsins til að bæta kjör þessa hóps sem verst er settur þegar ríkissjóð á á næsta ári að afgreiða, ef svo má að orði komast, með 30 milljarða tekjuafgangi? Er ekki kominn tími til að þessir hópar fái nokkra leiðréttingu sinna mála? Það er sannarlega rétt að þetta eru ólíkir hópar á vissan hátt og það er sannarlega rétt líka að sem betur fer hafa töluvert margir aldraðir það ágætt, hafa góðan lífeyri til að lyfta upp tekjum sínum, hafa jafnvel miklar fjármagnstekjur af stórum og miklum eignum sem þeir hafa e.t.v. selt. En það er allt of stór hópur í þjóðfélaginu sem hefur hreinlega orðið út undan og það eru þessir verst settu sem ég er hér að gera að umtalsefni og það, herra forseti, þolir ekki neina bið að leiðrétta kjör þeirra.

Strípaðar tryggingabætur frá Tryggingastofnun ríkisins eru rétt rúmar 50 þús. kr. sem einstaklingur fær eftir að búið er að taka um 7.500 kr. í skatta sem er náttúrlega síðustu ára vandamál, ef svo má að orði komast, þar sem sífellt er verið að ráðast á eða seilast ofan í vasa þessa fólks og sækja hluta af tryggingabótunum til baka í sköttum, sem er nýmæli.

Herra forseti. Lífeyrissjóðir eru ekki gamlir. Í kringum 1970 verða þessir almennu lífeyrissjóðir til og þá hafði fólk aðeins tækifæri til að greiða af dagvinnulaunum. Árið 1986 er samið um að heildarlaun komi þar inn en það tók ekki gildi fyrr en 1990. Áttundi og níundi áratugurinn voru ákaflega óhagstæðir fyrir það fólk sem þá var á efri árum og var á vinnumarkaði og þeir voru líka ákaflega óhagstæðir fyrir marga lífeyrissjóði sem töpuðu miklum peningum.

Ég vil t.d. spyrja að því hvaða möguleika heimavinnandi húsmæður höfðu á þessum árum til að vinna sér inn lífeyrisréttindi, húsmæður sem þá voru að ala okkur upp, fólk sem nú er milli fertugs og fimmtugs? Ekki voru leikskólar sem samfélagið rak og borgaði. Vinna var jafnvel stopul, stundum bara sumarvinna og mjög litlar tekjur. Hvernig átti þetta fólk að vinna sér inn stórkostleg lífeyrisréttindi til að lyfta upp tryggingabótum dagsins í dag? Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að svo stór hópur aldraðra hefur það slæmt nú.

Á þessum tíma komst fólk meira að segja oft og tíðum ekki út á vinnumarkaðinn vegna þess að það var að annast aldraða ættingja sína. Þá voru ekki dvalarheimili eins og nú. Þá voru heldur ekki greiddar umönnunarbætur þannig að þetta varð fólk að gera á þessum árum og ekki fengu heimavinnandi húsmæður lífeyrisréttindi.

Konur sem nú eru á efri árum hafa mjög léleg lífeyrisréttindi. Þær höfðu á þessum árum miklu lægri laun en karlar og þetta er fólkið sem fær í kringum 3--5 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði. Ég sagði áðan að rétt væri að minna á atvinnuleysisárin sem vafalaust komu verr við konur en karla. Fiskvinnsla var oft stopul. Ég spyr t.d.: Hver er réttur bænda og bændakvenna til lífeyrisréttinda? Ætli það séu ekki mjög léleg réttindi?

Herra forseti. Fjöldi Íslendinga hefur mjög litlar greiðslur og það eru greiðslur sem eru ekki nægjanlegar til framfærslu í landinu. Það er ekki mannsæmandi ráðstöfunarfé og þess vegna verður ríkisvaldið að hlaupa undir bagga með einhvers konar afkomutryggingu þar sem farið er í hlutina og skoðað úr hverju fólk hefur að spila. Þetta er mjög auðvelt að gera í gegnum skattframtöl fólks og tryggja þar með einhvers konar lágmarksafkomutryggingu. Ríkið verður að hækka þessi lágmarksframlög og það verður að gerast í samræmi við það hvernig laun hafa almennt hækkað og þróast í þjóðfélaginu.

Okkar kynslóð, þeirra sem eru á aldur við mig sem hér stend, fólk á besta aldri, við munum vafalaust fá mjög góð lífeyrisréttindi. Það koma inn um bréfalúguna liggur við á hverjum einasta degi tilboð um að borga meira í lífeyrissjóð, séreignarsjóð o.s.frv. Ég held að tryggingakerfið þurfi ekki að hafa áhyggjur af okkur þegar við verðum komin á ellilífeyrisaldur. En í dag er nauðsynlegt að koma inn í þetta. Það er misjafnt hvernig aldraðir hafa lagt fyrir. Mjög margir hafa ekki átt neitt annað en fasteignir og það er mikill munur á aðstöðu aldraðra, þ.e. hvort menn hafa átt fasteignir úti á landi eða í Reykjavík. Með öðrum orðum hafa margir aldraðir átt góðar eignir á höfuðborgarsvæðinu sem hafa haldið verðgildi. Þeir hafa getað selt þær og farið á öldrunarheimili og lifað góðu lífi e.t.v. á sínum fjármagnstekjum og því sem kom inn fyrir fasteignina. Úti á landi er þessu ekki svo farið. Þar eiga mjög margir aldraðir húsnæði sem er nánast verðlaust, hefur m.a. verið gert verðlaust vegna samþykkta frá hinu háa Alþingi, t.d. með breytingu á fiskveiðilögum og vegna landbúnaðarins, sem tvímælalaust hefur dregið úr þrótti landsbyggðar og gerir það að verkum að mjög margir aldraðir sitja í sínu húsnæði, eiga jafnvel ekki fyrir viðhaldi eða venjulegum rekstri. Húsnæðið er að grotna niður og fólk getur ekki selt það.

Vegna þenslunnar á höfuðborgarsvæðinu er svo þetta fólk ofan á allt látið greiða fasteignagjöld af sínum lágu bótum til samræmis við það hvernig fasteignamat hefur verið á höfuðborgarsvæðinu. Það má segja að nokkur mánaðarlaun þessa fólks fari í að borga fasteignagjöld, dýran hita, rafmagn, síma, viðhald o.s.frv.

Herra forseti. Ég sagði áðan að mjög stór hluti öryrkja er lítt efnum búinn og á verulega undir högg að sækja í þjóðfélaginu. Til eru hópar sem eiga verulega bágt í þjóðfélaginu í dag og þetta er fólk sem er ætlað að lifa og draga fram lífið á strípuðum tryggingabótum frá Tryggingastofnun, sem eins og ég sagði áðan, eru eitthvað í kringum rúmar 50 þús. kr. þegar ríkissjóður er jafnvel búinn að taka nokkrar þúsundir í skatta. Þetta er smánarblettur á þjóðfélagi okkar. Það er smánarblettur á þjóðfélaginu hvernig komið er fram við þessa hópa nú um aldahvörf og það er hreint og beint skammarlegt fyrir íslenska þjóð að koma fram við fólk eins og raun ber vitni. Þess vegna finnst mér mjög miður þegar menn láta sér detta í hug að segja að aldraðir hafi látið glepja sig, eins og kom fram í ræðu eins þingmanns, niður á Austurvöll til að mótmæla bágum kjörum, til að mótmæla því að það telur ekki nóg að fá 157 krónurnar sem það fékk í bætur 1. apríl sl. og fjöldi manns hélt að væri aprílgabb þegar það fékk þessa seðla og þessa hækkun, þá voga menn sér að tala um að þetta fólk láti glepja sig hingað niður á Austurvöll til að mótmæla þessu. Menn tala um að það sé búið að koma því inn hjá þessu fólki að það hafi það slæmt. Þessi málflutningur er alveg með ólíkindum og ég segi alveg hiklaust að það er Alþingi ekki til sóma að þetta skuli vera sagt bæði héðan úr ræðustóli og í umræðum alþingismanna á milli.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég hefði mjög gjarnan viljað eiga orðaskipti við hv. þm. Pétur Blöndal sem er fjarverandi í dag. En ég get ekki annað en minnst á þau ummæli sem féllu á hinu háa Alþingi við umræðu utan dagskrár sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hóf á fyrstu dögum þingsins. Þar kom fram í máli umrædds hv. þm., með leyfi forseta:

,,Auðvitað eru slæmar fjárhagsástæður hjá öldruðum eins og hjá öðrum hópum þjóðfélagsins. Fólk hefur fjárfest glannalega, tapað í atvinnurekstri, skrifað upp á og svo er auðvitað óreglan sem er allt of víða. Það má ekki gleyma því.``

Herra forseti. Það voru þessi ummæli sem mér gramdist mjög og að láta sér detta í hug að þetta eigi við. Ég segi bara stutt og laggott: Ég er hér með seðla frá ótal ellilífeyrisþegum og öryrkjum sem hafa þessar smánarbætur sem ég hef hér nefnt. Þetta fólk hefur ekki fjárfest glannalega. Það hefur heldur ekki tapað í atvinnurekstri. Það hefur heldur ekki látið glepjast til að skrifa upp á og það hefur heldur ekki verið í óreglu, hvorki í fjármálalegri né vegna áfengis. En þetta fólk er samt sem áður í vandræðum. Þetta er fólk sem er með 53 þús. kr. í bætur frá Tryggingastofnun útborgað eftir skatta og fær kannski einhverjar 10 þús. kr. úr lífeyrissjóði eða í makalífeyri vegna þess sem ég sagði áðan og var að tala um, að við upphaf lífeyrissjóðakerfisins hafði fjölmargt af því fólki sem er aldrað í dag bara ekki tækifæri til að vera úti á atvinnumarkaðnum. Eins og ég segi, það var að ala okkur upp, fólkið sem nú lifir í vellystingum praktuglega og kemur til með að hafa mjög góða lífeyrissjóði, það var jafnvel að annast aldraða foreldra sína og það þurfti að líða fyrir atvinnuleysi. Öryrkjar sem hafa kannski verið öryrkjar allt sitt líf og gátu ekki stundað neina vinnu og unnið sér inn nein lífeyrisréttindi, hvað hefur þetta fólk í bætur? Svipaða tölu. Treystir einhver hér inni sér til að lifa á þessum skammarlega lágu töxtum? Ég tek það skýrt fram að ég held að það sé mjög mikill munur á hvort við erum að tala hér um ellilífeyri aldraðra eða öryrkja.

[16:30]

Ég þekki þess dæmi að margir aldraðir eru mjög ánægðir og harma ekki hlutinn sinn. En það eru líka aldraðir sem hafa það mjög skítt og í þessu þjóðfélagi er allt of stór hópur öryrkja sem hefur það verulega skítt og á ekki fyrir nauðsynlegri framfærslu.

Ég hafði mikla ánægju af því um helgina, herra forseti, eins og margir aðrir alþingismenn og landsmenn, að ganga í hús með rauðan bauk og safna fyrir Rauða krossins vegna þess átaks sem þar var í gangi. Göngum til góðs, hét það. En það var ákaflega dapurt að koma í hús þar sem maður þekkir aðstæður --- búi maður í smáum samfélögum þekkir maður kannski betur aðstæður fólks en hér í margmenninu á höfuðborgarsvæðinu --- og spyrja sig jafnvel að því hvort maður hefði átt að ganga fram hjá vegna þess að maður vissi að þar var ekkert til afgangs. Maður spurði sig hvort ástæða væri til að banka upp á, sem varð kannski frekar úr, og fá þau svör að fólkið væri bara ekki aflögufært. Það var allt að því sorglegt. Það vekur okkur enn einu sinni til umhugsunar um hve illa við komum í raun fram við þetta fólk á sama tíma og flæðir út úr ríkissjóði og hæstv. fjmrh. er jafnvel í vandræðum með hvað gera skuli við allan afganginn.

Ég held, herra forseti, að allir hv. þm. ættu að hugsa aftur til þingsetningarinnar. Í kirkjunni flutti ágætur prestur okkur mikla og góða ræðu og hér úti á Austurvelli stóð mikill hópur aldraðra og mótmælti kjörum sínum og á Hótel Borg höfðu safnast saman öryrkjar til að mótmæla sínum kjörum. Meira að segja nokkrir sálmar sem sungnir voru í kirkjunni voru áminning til okkar þingmanna. Eitt af því sem presturinn sagði vil ég gera að lokaorðum mínum. Hann sagði: ,,Heiðra skaltu föður þinn og móður.``