Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 16:35:10 (941)

2000-10-30 16:35:10# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem kom hér og tók fyrir lífeyrismál sjómanna, sem ég fjallaði ekki um í ræðu minni. Það var ekki hægt að komast yfir allt en auðvitað er það hárrétt hjá hv. þm. að sjómenn hafa ekki borgað í lífeyrissjóð af fullum launum nema í 13 ár. Það sýnir okkur náttúrlega hve skammt á veg kerfið er í raun og veru komið.

En íslenskir sjómenn eins og þingmenn og aðrir hafa nú margfalt fleiri tækifæri til að leggja í þá sjóði sem standa til boða, séreignarsjóði og annað, og leggja fyrir. Ég hygg að það hafi verið með sjómenn, svipað og með heimavinnandi húsmæður og aðra hér áður fyrr þegar aflabrestur varð og annað slíkt, að þeir hafi ekki getað myndað mikinn og sterkan sjóð. Vafalaust eru aldraðir sjómenn nú í svipuðum sporum og þeir sem ég gerði að umtalsefni og hafa ekkert annað en strípaða taxta og lélegar bætur.

Það sem ég var að reyna að draga fram var að meðan það millibilsástand ríkir, sem enn varir og verður e.t.v. í 15--20 ár í viðbót, verður samfélagið, ríkisvaldið, að koma á einhvers konar afkomutryggingu til að tryggja lágmarkslaun til framfærslu. Ég er ekki að tala fyrir bótum sem muni ganga upp allan stigann. Ég held að það þurfi að grípa til bráðaaðgerða, aðgerða sem við aldahvörf ættu eiginlega að vera keppikefli allra stjórnmálamanna og allra stjórnmálaflokka, að mynda einhvers konar þjóðarsátt um afkomutryggingu til handa þeim sem hafa léleg lífeyrisréttindi í dag.

Við skulum heldur ekki gleyma því, herra forseti, að upphafsár lífeyrissjóðanna, 8. og 9. áratugurinn, voru lífeyrissjóðunum mjög erfið þar og fé þeirra brann upp.