Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 17:43:05 (948)

2000-10-30 17:43:05# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst slæmt ef hv. þm. hefur sárnað við mig. Ég spurði bara og ég endurtek spurningu mína: Minnkuðu tekjutengingar á árunum sem Alþfl. stýrði málaflokknum? Finnst hv. þm. betra eins og var að þessar tekjutengingar sem áttu sér stað voru þá ólöglegar? Er það það sem hv. þm. er að segja?

Ég vil ekkert vera að skattyrðast um þetta mál. Ég hef sýnt það í verki að ég tel þetta vera mannréttindamál. Þess vegna höfum við gengið þessi skref. Það eina sem ég er að segja er að við höfum í það minnsta sett yfir 500 milljónir í þetta mál og kallar hv. þm. það oft í ræðustól hænuskref og þess vegna efast ég um að 360 millj. dugi.

En það sem ég ætlaði að segja var hvernig þetta er á öðrum Norðurlöndum, með leyfi forseta: Í Danmörku byrjar tryggingin að skerðast þegar sameiginlegar tekjur eru orðnar hærri en 93.200 danskar kr. Það er svonefnd viðmiðunarupphæð. Þetta felur í sér að fyrir öryrkja sem er giftur launþega með meðaltekjur fellur tekjutryggingin eða viðbótarupphæðin venjulega niður. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef fengið og ber hér fram. En ég er fegin að heyra það, eins og ég segi, ef menn eru sammála mér um að það eigi ekki að ganga yfir allan grunnlífeyri, alveg sama hvað fólk er með í tekjur, að menn vilji gera virkilega vel við þá sem þurfa mest á því að halda og það er um 20% þessara lífeyrisþega.