Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 18:19:30 (954)

2000-10-30 18:19:30# 126. lþ. 15.17 fundur 19. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga. Hv. 1. flm. tillögunnar hefur farið ítarlega yfir tillöguna en sem meðflutningsmaður vil ég leggja áherslu á hve mikilvægt er að komið verði á heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga með það að markmiði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðfélagsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Því er afar mikilvægt að það verði til heildstæð, langtíma, opinber stefna með skýr markmið til að koma í veg fyrir handahófskennd vinnubrögð í málefnum barna og unglinga.

Herra forseti. Markmið íslenskra stjórnvalda er að öll börn eigi þess kost að alast upp í öruggu og örvandi umhverfi.

Í stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að bæta þjónustu við börn og unglinga, að auka forvarnaaðgerðir og meðferðarúrræði og efla áfengis- og vímuefnavarnir, og bæta þjónustu við sjúk börn og ungmenni og tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu og efnahags.

Viðurkennt er af flestum að fjölskyldan er ein elsta og um leið mikilvægasta stofnun samfélagsins. Hún er í reynd grunneining þjóðfélagsins í þeim skilningi að hver einstaklingur er eða hefur verið hluti af fjölskyldu enda þótt fjölskyldugerð og tengsl kunni að vera breytileg. Í löggjöf á sviði sifjaréttar er að finna hina lagalegu umgjörð fjölskyldunnar, réttindi og skyldur hjóna og réttindi barna.

Í barnalögum er að finna ítarleg ákvæði um rétt barna og skyldur foreldra, svo sem vegna feðrunar barns, réttar til framfærslu, forsjárréttar og umgengnisréttar við það foreldri sem hefur ekki forsjá.

Í barnaverndarlögum er fjallað um markmið og stjórn barnaverndarmála. Lögin taka til þess hvernig skuli með farið þegar gengið er á rétt barnsins til öruggra þroskavænlegra uppeldisskilyrða eða ef andlegri og líkamlegri líðan þess er ógnað. Þau veita barnaverndaryfirvöldum nokkuð víðtækar heimildir til að hafa afskipti af högum fjölskyldna ef þau telja sig hafa gildar ástæður til.

Meginreglan er sú að þau afskipti skuli vera fólgin í stuðningi við fjölskyldur þannig að foreldrarnir geti annast börn sín sómasamlega.

Börn og unglingar 18 ára og yngri eru fjölmennasti aldurshópur í íslensku samfélagi og er mun hærra hlutfall en í öðrum nágrannalöndunum og því enn nauðsynlegra fyrir okkur Íslendinga að búa vel í haginn fyrir þennan aldurshóp. Af mörgu er að taka. Brottfall nemenda úr skólum, bæði úr grunn- og framhaldsskólum, er áhyggjuefni.

Hvað er það sem veldur? Hvernig er tekið á þeim málum? Hvernig stendur á því að börnum líður illa í skóla?

Að öllu þessu verðum við að huga. Aðstæður á Íslandi eru á margan hátt frábrugðnar aðstæðum annars staðar á Norðurlöndum. Mikil atvinnuþátttaka og langur vinnutími hefur í langan tíma verið eitt af einkennum íslensks samfélags. Vinna barna og unglinga yfir sumartímann er mun algengari en í þeim löndum sem við miðum okkur við. Ég álít reyndar að sumarvinna unglinga á Íslandi sé af hinu góða. Það er bæði þroskandi og góður skóli að taka þátt í atvinnulífinu.

Vinna unglinga með skóla er mjög áberandi og þátttaka í því lífsgæðakapphlaupi, sem einkennir Íslendinga, er aftur á móti mjög umhugsunarvert. Við höfum séð það að þau steypa sér í skuldir því að það kostar sitt að reka bíl, síma o.s.frv. Í neyslusamfélaginu eru foreldrar oft að kaupa sig frá uppeldishlutverkinu.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna tók gildi á Íslandi 27. nóvember 1992, en hann hefur að geyma fjölmörg atriði er lúta að réttindum barna. Barnasáttmálinn felur í sér skuldbindandi samkomulag þjóða heims um sérstök réttindi börnum til handa, óháð réttindum hinna fullorðnu. Í 3. gr. segir að það sem sé barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar yfirvöld taka ákvarðanir er varða börn. Engu barni má sýna mismunun og það sem barninu er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang.

Barnasáttmálinn hefur að geyma fjölmörg atriði er lúta að réttindum barna. Lög barnanna fela í sér full mannréttindi allra barna og unglinga og öll eiga þau sama rétt til að alast upp í friði og öryggi og virðingu fyrir hugsunum sínum og skoðunum. En öllum réttindum fylgja einnig skyldur og því þurfa börn og unglingar að gera sér grein fyrir eins og aðrir.

Framtíð barns byggir í raun á fortíð þess. Það að skapa börnum góð lífsskilyrði á æskuárum sínum er arðbær fjárfesting þegar til lengri tíma er litið. Aðstæður barna og unglinga eru misjafnar en sem betur fer alast börn upp við góðar aðstæður í flestum tilfellum. En víða eru þær samt ótryggar og það sést glöggt á öllum þeim fjölda barna sem barnaverndarnefndir landsins hafa afskipti af á hverju ári. Við vinnslu þeirra mála kemur oft fram skortur á ákveðinni stefnu í málefnum barnanna og hinar ýmsu stofnanir sem sinna þeim, til að mynda skólar, heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld vinna í allt of miklum mæli einangrað án þess að tekið sé mið af heildarþörfum barnanna og fjölskyldna þeirra.

Ýmislegt hefur verið gert af hálfu stjórnvalda í málefnum barna og unglinga. Umdæmi barnaverndarnefnda hafa m.a. verið stækkuð og barnaverndarnefndum fækkað og nauðsynlegt er að sú þróun haldi áfram þannig að nefndirnar geti ráðið til sín sérhæft starfsfólk sem hefur þá þekkingu sem til þarf við úrvinnslu viðkvæmra mála.

Mikil breyting hefur orðið í íslensku samfélagi með auknum flutningi fólks til landsins. Fleiri og fleiri börn fæðast hér sem eru ekki af íslensku bergi brotin eða hafa fæðst erlendis og flutt hingað til lands af ýmsum ástæðum. Nauðsynlegt er að huga vel að þeim börnum sem eru í þeirri aðstöðu að vera í nýju landi og þurfa að læra nýtt tungumál. Aðstaða þeirra barna er mjög ójöfn aðstæðum annarra barna. Það er umhugsunarvert hvernig þau aðlagast íslensku samfélagi. Hvernig vegnar þeim í skólum, bæði í grunn- og framhaldsskólum?

Herra forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að málefni barna og unglinga séu í sem bestum farvegi og þar eigum við að standa í fremstu röð meðal þjóða heimsins.

Herra forseti. Mig langar að ljúka orðum mínum með broti úr ljóði eftir Matthías Johannessen. Það er minning um dreng og það hljóðar svo:

  • Við uxum úr grasi með glitrandi vonir,
  • en gleymdum oftast að hyggja að því,
  • að það er ekki sjálfsagt, að sólin rísi
  • úr sæ hvern einasta dag eins og ný.