Könnun á umfangi vændis

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 18:42:37 (959)

2000-10-30 18:42:37# 126. lþ. 15.19 fundur 49. mál: #A könnun á umfangi vændis# þál., Flm. GÖ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um könnun á umfangi vændis. Flutningsmenn þessarar tillögu ásamt mér eru Þórunn Sveinbjarnardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Össur Skarphéðinsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir.

Þingsályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa vinnuhóp sem kanni umfang vændis á Íslandi. Í vinnuhópnum verði m.a. fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, Háskóla Íslands, Stígamótum og embætti ríkislögreglustjóra og landlæknis.

Vinnuhópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 2001.``

Þessi tillaga var lögð fram á síðasta löggjafarþingi og er núna flutt óbreytt, en hún var lögð fram 20. mars og aldrei náðist almennilega að mæla fyrir henni. Sú tillaga var líka í öðru samhengi. Hún var í samhengi við skýrslubeiðni mína um samanburð á lagaumhverfi á Norðurlöndunum og milli Norðurlandanna og Íslands. Sú tillaga var flutt í apríl. En allt þetta hófst nú með utandagskrárumræðu sem ég tók upp í þinginu um mansal.

Greinargerðin er svohljóðandi, herra forseti:

,,Mikil umræða hefur farið fram á síðustu mánuðum um það hvort vændi sé stundað á Íslandi og þá hvert sé eðli þess og umfang. Ekki hafa nýlega verið gerðar rannsóknir sem hægt væri að nýta í þeim tilgangi að skoða þessi mál.

Vændi er alþjóðlegt vandamál sem spyr ekki um landamæri og það er ekkert sem segir að það sé ekki hér á landi eins og annars staðar. Sifjaspell og kynferðisafbrot, t.d. gagnvart börnum, reyndust hlutfallslega engu færri hérlendis en í nágrannalöndunum þegar farið var að ræða þessi viðkvæmu mál.

Mikilvægt er að skoða eðli vændis, þ.e. fylgdarþjónustu, símaþjónustu, netið, dansstaði o.fl., og hvort það er frábrugðið því sem gerist annars staðar, t.d. í öðrum norrænum ríkjum. Áríðandi er að athuga hvaða hópar stunda vændi hér á landi. Hér er ekki einungis átt við konur því einnig er vitað um vændi meðal karlmanna í öðrum löndum og nauðsynlegt að skoða hvort um slíkt er að ræða hér, enn fremur í hvaða mæli yngri aldurshópar eiga í hlut. Jafnframt er mikilvægt að reyna að komast að því hverjir það eru sem nýta sér vændi. Margar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis, t.d. í Finnlandi, Þýskalandi og víðar. Einnig þarf að kanna sérstaklega vændi sem fram fer á netinu og gera úttekt á því en vitað er að þar eiga sér stað kaup á margs konar kynlífsþjónustu. Í Svíþjóð hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir á þessu sviði, bæði á umfangi og eðli þess sem er í boði og hvernig hægt er að stemma stigu við því.

[18:45]

Til þess að koma með lausnir og viðbrögð við því sem virðist vera að gerast í samfélaginu er nauðsynlegt að skoða þessi mál frá sem flestum hliðum til að koma með raunhæfar tillögur og lausnir á vandanum eins og aðrar þjóðir hafa gert. Unnt verði að skoða hvaða lagabreytingar þarf að gera til að stemma stigu við vændi og hvort og þá hvaða samfélagslegar lausnir eru til staðar sem eru nothæfar til þess að leysa vandamál þeirra sem ratað hafa í slíka ógæfu. Slík könnun gerir kleift að áætla hvernig á að bregðast við vandamálum sem upp koma, svo sem varðandi forvarnir og kynsjúkdóma, en slíkt er mikið vandamál, t.d. í Eystrasaltslöndunum og í Rússlandi. Þar er glímt við kynsjúkdóma sem fyrir löngu hefur verið útrýmt á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu.

Flutningsmenn telja mikilvægt að vinnuhópur af þessu tagi sé samsettur þverfaglega. Þannig sé tryggt að fram komi sem flestar hliðar á málinu og þar af leiðandi fjölbreyttar lausnir.``

Ítrekaðar hafa verið fyrirspurnir til dómsmrh. í blöðunum og núna er verið að svara fyrirspurnum frá því í maí í vor sem lúta að því sama og þessi tillaga er um. Þar kemur líka greinilega í ljós að verið er að vinna sérstaka rannsókn hjá ráðuneytinu sem er gerð af ákveðnu fyrirtæki hér í bæ. Ég var að vona að þegar þessi tillaga kemur inn í nefnd sé hægt að koma henni hreinlega sem fyrst upp í ráðuneyti þannig að sú könnun sem verið er að gera fái örlítið meiri breidd. Í grein í Morgunblaðinu eftir Ingva Hrafn Óskarsson, sem vinnur í dómsmrn., segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í rannsókninni hefur verið leitast við að kanna hvort vændi sé stundað meðal ungs fólks og hvað knýi það til þess að afla fjármagns með þeim hætti. Leitast hefur verið við að draga upp mynd af aðstæðum þessara ungmenna. Þá hefur athygli beinst að starfsemi nektardansstaða, með það að markmiði að varpa ljósi á hugsanlegt vændi í tengslum við starfsemina.``

Þarna á að skoða þetta. Einnig þarf að skoða fylgdarþjónustuna en nýverið hafa verið viðtöl, t.d. á Skjá einum, við ný fyrirtæki sem eru með slíka þjónustu. Eins og ég sagði í einu sjónvarpsviðtalinu ætlum við líka alltaf að ganga örlítið lengra en margar aðrar þjóðir hafa gert. Við þekkjum fylgdarþjónustu t.d. frá Norðurlöndunum og Bretlandi og ekki er þar endilega innifalin kynmök en það þykir alveg sjálfsagt í þeirri nýju fylgdarþjónustu sem er verið að bjóða upp á í Reykjavík. Við virðumst því ætla að taka eiginlega allar öfgar sem til eru. Jafnframt bjóða nektardansstaðirnir hér á landi upp á einkadans en það þekkist heldur ekki í Skandinavíu enda þótt þar séu slíkir staðir. Við virðumst alltaf ganga skrefinu lengra.

Herra forseti. Það er mjög gott að þetta mál er loksins komið á dagskrá. Ég sagði frá því að það var lagt fram á þinginu 20. mars og það er löngu tímabært. Sú viðbót sem ég geri ráð fyrir í þessari könnun á umfangi vændis gæti komið til viðbótar þeirri rannsókn sem er verið að vinna að í dómsmrn. Skýrslan um samanburðarlagaumhverfi milli Íslands og allra Norðurlandanna er að verða tilbúin og hún er mjög góð til að safna saman þekkingu á þessu sviði. Ef ég sé fram á að ekkert verði við þetta gert þá fæ ég ekki betur séð en að það endi þá í einhvers konar skýrslubeiðni en ég veit að þetta er mál sem allir vilja vinna að og reyna að koma almennilegu skikki á.

Ég læt því máli mínu lokið og mælist til þess að málinu verði vísað til hv. allshn.