Iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 13:38:35 (963)

2000-10-31 13:38:35# 126. lþ. 16.1 fundur 155. mál: #A iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna# beiðni um skýrslu frá viðskrh., JóhS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Tilefni þessarar skýrslubeiðni er miklar hækkanir tryggingafélaganna á sl. tveimur árum eða um 70--80%. Tryggingafélögin hafa borið fyrir sig að ástæða þess að þau hafi þurft að hækka svona mikið iðgjöld bifreiðatrygginga sé til að mynda skaðabótalögin, skaðabótalög sem Alþingi hefur sett. Einnig er hér um lögboðnar skyldutryggingar að ræða og þannig er mjög eðlilegt, þegar ekki hafa komið fram viðunandi skýringar á þessari iðgjaldahækkun þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi farið ofan í málið, að Alþingi, sem hefur eftirlitshlutverki að gegna, taki málið til sín. Rök ráðherra ganga ekki, að þar sem Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með tryggingafélögunum þá geti Alþingi ekki komið að málinu. Með sama hætti má segja að Alþingi geti ekki fjallað um neinar stofnanir hjá hinu opinbera af því að Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með þeim stofnunum. Við getum líka tekið sem dæmi Samkeppnisstofnun, að þá megi heldur ekki fjalla um mál sem Samkeppnisstofnun hefur á sinni könnu. Þessi rök eru fjarstæða og þess vegna segi ég auðvitað já.