Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 14:34:45 (972)

2000-10-31 14:34:45# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Umræður um frv. til fjáraukalaga sem hér er til 1. umr. í dag hafa að hluta snúist um form og það lagaumhverfi sem frv. er lagt fram í. Ég get í sjálfu sér tekið undir að æskilegt væri að þetta frv. til fjáraukalaga væri sem minnst að umfangi, að hér væru ekki nema fjárframlög sem vart þola bið eins og kveðið er á um í lögunum. Auðvitað má lengi deila um þær fjárveitingar sem hér eru lagðar til, hversu brýnar þær eru. Ég get hins vegar sagt það í þessu sambandi að við í forustu fjárln. höfum ítrekað rætt við fjmrn. um samskiptareglur okkar varðandi fjáraukalögin og ákvarðanir um að sækja eftir aukafjárveitingum. Við þurfum að koma þeim samskiptareglum í fast form og ég vona að svo verði. Ég fullyrði að það er fullur vilji til að koma þar á föstu formi í samræmi við þau nýlegu lög sem við störfum eftir og horfðu til mikilla framfara á sínum tíma.

Ég vil ekki segja að umgengni við framkvæmdarvaldið sé þannig að Alþingi sé stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið á hverjum tíma. Ég vil ekki skrifa undir það vegna þess að auðvitað eru fjölmargar ákvarðanir sem teknar eru hér á Alþingi ekki lagðar til af ríkisstjórn í fjárlögum. Ég gæti talið upp langa lista af ákvörðunum sem átt hafa rætur sínar að rekja til umræðna hér á Alþingi. Að sjálfsögðu er náið samstarf milli Alþingis og þess meiri hluta sem á hverjum tíma styður ríkisstjórn og framkvæmdarvaldið og það hlýtur ætíð að verða svo. Ég vil undirstrika þetta varðandi þessa þörfu umræðu. Ég dreg ekkert úr því að það er þörf fyrir okkur í fjárln. og fjmrn. og fagráðuneyti að móta sem bestar vinnureglur um samskipti okkar á hverjum tíma.

Þetta fjáraukalagafrv., eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., sýnir betri afkomu ríkissjóðs en reiknað var með í upphafi ársins. Sú breyting er vegna aukinna tekna, það sýnir tekjuhlið frv. Af tekjuhliðinni má sjá að tekjur hækka af tekjuskatti, það eru auknar tekjur af fjármagnstekjuskatti og það eru hærri tekjur af tekjuskatti lögaðila. Þetta þrennt er til komið vegna þess að það er kraftur í efnahagslífinu, miklar tekjur og batnandi afkoma fyrirtækja þó að ýmis sólarmerki séu á lofti í því, ég vil taka það fram og það hefur reyndar komið fram í þessari umræðu áður. Við getum tæpast vænst þess að fjármagnstekjur og tekjuskattur lögaðila hækki með sama hraða og raunin hefur verið undanfarið.

Tekjur af virðisaukaskatti hafa einnig hækkað umfram áætlanir, um 5,9 milljarða. Þennan tekjuauka má auðvitað rekja til veltu í þjóðfélaginu, viðskiptahalla og þeirra afleiðinga sem af honum eru. Allt þetta verður til þess að afgangur af ríkissjóði verður meiri en áður var. Ég hef ávallt lagt áherslu á það í ræðu og riti að tekjuafgang sem þannig er saman settur verði að leggja fyrir. Ein leið er að greiða niður með honum skuldir en það eru vissir annmarkar á því að greiða niður erlendar skuldir vegna gengisins eins og komið hefur fram. En það er nóg til af öðrum leiðum til að koma afganginum fyrir til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs og gera hann færan um það í framtíðinni að taka á öllum þeim þörfu málum í samfélaginu sem hann á að sinna. M.a. hefur staða Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna verið styrkt og það kemur til góða í framtíðinni. Ég hef lagt áherslu á þetta.

Mikið hefur verið rætt um mikinn afgang ríkissjóðs á þessu ári og næsta ári. Mér hefur ekki heyrst skorta tillögur um það hvernig eigi að koma þessum afgangi í lóg og úthluta honum strax. Ég tel að svo eigi ekki að gera og það sé hygginna manna háttur að nota tækifærið nú þegar miklar tekjur koma inn í ríkissjóð að laga til fyrir framtíðina. Ég held að þetta verði seint nægilega vel undirstrikað.

Hv. 7. þm. Reykv. hélt hér ræðu um efnahagsmál og efnahagsástandið almennt. Hann taldi vera hættuástand í þeim efnum. Ég tel að það sé þarft að ræða um efnahagsmálin, viðskiptahallann og afleiðingar hans en mér fannst vanta í ræðu hv. þm. tillögur um það hvernig hann vilji bregðast við viðskiptahallanum. Viðskiptahallinn er m.a. saman settur af versnandi viðskiptakjörum, miklum olíuverðshækkunum, eldsneytishækkunum og versnandi kjörum fyrir útflutning okkar á ýmsum afurðum. Þau áhrif eru ekki að öllu leyti í valdi stjórnvalda en ég tek undir það að reyna beri að draga úr þessum mikla viðskiptahalla.

Við höfum t.d. rætt um frestun á tilteknum framkvæmdum til að gefa skilaboð út í samfélagið um að óæskilegt sé að hafa slíka þenslu í samfélaginu, a.m.k. á ákveðnum landsvæðum. Ég vonast til að ef slík umræða kemur upp þá eigum við stuðningsmenn í því. Ég hef hins vegar heyrt að þingheimur, a.m.k. hluti hans, hafi miklar áhyggjur af þessum frestunum, telji þær varla réttlætanlegar, en þær eru eitt tækið sem stjórnvöld hafa. Stjórnvöld hafa satt að segja ekki mörg önnur tæki en ríkisfjármálin til að draga úr þenslu í samfélaginu, að reyna að stilla útgjöldum ríkisins í hóf, sýna aðhald og greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Útgjöld þessa frv. hafa ekki vaxið með sama hraða og tekjurnar og því sýnir það bætta afkomu. En nokkur mál skera sig úr varðandi útgjöld. Það eru einstakar ákvarðanir, sumar komnar til vegna ófyrirsjáanlegra atburða eins og jarðskjálfta á Suðurlandi. Ég held að menn deili ekki um að það séu brýn útgjöld.

[14:45]

Deila má um hvort útgjöld vegna El Grillo hefðu átt að vera á fjárlögum síðast eða á fjáraukalögum núna en ég held að ekki sé deilt um að ekki verði undan því vikist að fara í þetta verk. Þar eru 102 millj. inni til þeirra hluta til að geta hrint þessu verki af stað sem þolir ekki bið en verkið þarf að bjóða út til þess að fá endanlega úr því skorið hvað það kostar í raun því að alþjóðlegt útboð sker úr um slíkt.

Hér eru hækkanir til sjúkratrygginga. Það er til komið af lyfjakostnaði og sérfræðiþjónustu. Við höfum eytt töluverðum tíma í það í fjárln. að fara yfir þessi mál bæði varðandi fjáraukalög og fjárlög. Það þurfum við að gera áfram. Þarna eru áætlanir sem hafa ekki staðist eða kostnaður hefur farið fram úr þeim áætlunum sem gerðar voru. Það er staðreynd að lyfjakostnaðurinn hækkar um ein 12% á ári vegna útgáfu nýrra lyfja en ekki hafa gengið eftir áform um kerfisbreytingar í lyfjunum sem voru áætlaðar í upphafi árs. Þess vegna er beðið um aukafjárveitingar þarna.

Fjárveitingar til utanrrn. varðandi sendiráð í Japan hafa valdið mikilli umræðu hér. Það er í rauninni ekki í fyrsta skipti sem utanríkisþjónustan er til umræðu í þessu efni. Vissulega má deila um hvort þetta eigi að vera í fjáraukalögum eða fjárlögum. Ég vildi undirstrika í þessu sambandi að á Alþingi var flutt þáltill. eftir þáltill. um að stofna sendiráð í Japan. Mér er kunnugt um að fyrrv. samþingmaður minn á Austurlandi, Hjörleifur Guttormsson, var 1. flm. að þáltill. um þetta efni fjögur ár í röð á Alþingi. Hann var einn af frumkvöðlunum í þessu en það þótti eðlileg ákvörðun að stofna þarna sendiráð og Alþingi tók ákvörðun um það en síðan kom að því að koma sendiráðinu í húsnæði í Tókíó sem er ekkert auðvelt mál. Menn stóðu frammi fyrir þeim kostum að leigja húsnæði eða kaupa og þó að það hljómi kannski einkennilega í ljósi þeirra talna sem hér eru þá stóðu menn frammi fyrir afar hagstæðu tilboði um húsnæði og annaðhvort var að hrökkva eða stökkva og ákveða hvort ætti að kaupa þarna, fjárfesting sem borgar sig upp á tíu árum. Það er ljóst. Þess vegna er þessi upphæð til komin. Það er ósköp eðlilegt að hún veki umræðu. Þetta eru miklar fjárhæðir og það er ósköp eðlilegt að spurt sé hvort eðlilegt sé að verja slíkum fjárhæðum. En ákvörðunin er tekin og staðfest hefur verið að það verði gagnkvæmni, að Japanar opni hér sendiráð með miklu starfsliði og þá væntanlega fasteignakaupum hér þó að það verði lægri upphæðir en þarna er um að ræða. Ég vildi fara yfir þetta mál í ljósi þessa því að eðlilega blöskrar mörgum þær miklu fjárhæðir sem þarna eru. En ég vil undirstrika að að þetta er fjárfesting. Þetta eru ekki rekstrarútgjöld. Hins vegar er sendiráð í Japan eðli málsins samkvæmt mjög dýrt og verður það. En ákvörðunin var tekin hér og ég man ekki til að nokkrar deilur hafi verið um það á Alþingi þegar sú ákvörðun var tekin.

Ég hjó eftir því að hv. 7. þm. Reykv. talaði um að ríkisstjórnin hygðist standa fyrir eða stuðla að miklum framkvæmdum á næstu árum. (ÖS: Hún ræddi um það.) Ræddi um, já, svo ég hafi þetta nú allt saman rétt, hv. þm. Ég er þeirrar skoðunar að hver ríkisstjórn verði að horfa fram í tímann að þessu leyti. Þó að vel ári núna í atvinnulegu tilliti og umframeftirspurn sé eftir vinnuafli er alls ekki víst að svo verði á næstu árum. Það er ekkert sjálfgefið í því efni að það ástand haldist. Það er að fækka fólki vegna tæknibreytinga í mörgum atvinnugreinum. Það þarf að huga að því að nýsköpun verði í atvinnulífinu í stað þeirra starfa sem falla út í eldri atvinnugreinum, m.a. vegna tæknibreytinga. Sú þróun hefur verið mjög í gangi á undanförnum árum. Þess vegna held ég að menn verði að halda vöku sinni í þessu efni og við megum vara okkur á því að blanda þessu saman þó að ég taki vissulega undir áhyggjur hv. þm. af því að það er yfirspennt atvinnulíf í landinu núna enda sést það í þessum fjáraukalögum að farið er fram á 600 millj. kr. lækkun vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs sem sýnir náttúrlega hve atvinnuástandið er gott núna og í rauninni umframeftirspurn eftir vinnuafli. En við megum varast að hugsa sem svo að það sé náttúrulögmál og það haldist til frambúðar.

Þetta frv. fer til skoðunar í fjárln. og ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.