Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 14:57:17 (975)

2000-10-31 14:57:17# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[14:57]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur ákaflega á óvart ef hv. þm. er þeirrar skoðunar að skattalækkanir og skattahækkanir hafi ekki áhrif á þenslu. Auðvitað er það það heimskulegasta sem hægt er að gera í góðæri þegar menn sjá fyrir sér að þensla fer vaxandi að lækka skatta yfir línuna. Menn hefðu þá frekar átt að nota þá upphæð sem til þess fór til að hjálpa þeim hópum sem verst voru staddir. Þetta er bara skólabókardæmi í hagfræði, herra forseti.

Ég vek líka eftirtekt á því að ef grannt eru skoðaðar þær tölur sem liggja t.d. á heimasíðu ríkisskattstjóra, fæ ég ekki betur séð en að meðaltekjuskattar hafi nettó verið að hækka örlítið, m.a. undir styrkri forustu formanns fjárln. Það er aðgerð sem hefur að öllum líkindum eitthvað slegið á þensluaukninguna.

Herra forseti. Það var fleira sem ég vildi segja. Hv. þm. nefndi hvað það væri sem við í Samfylkingunni mundum grípa til og hvaða ráð við bendum á. Ég fór yfir nokkur úrræði og spurði hv. þm. spurningar, m.a. um þá ákvörðun sem tekin var gagnvart Búnaðarbanka. Hann svaraði henni ekki og það er allt í lagi. En það eru fleiri úrræði til.

Nú vill svo til að það eru ekki síst ríkisbankarnir sem hafa verið sökudólgar í þessari miklu þenslu og viðleitni þeirra til þess að skapa sér vígstöðu áður en samruninn á bankamarkaði gekk yfir. Herra forseti. Hvað mælir gegn því að eigendur þessara banka, þ.e. ríkisstjórnin, gefi skipanir til bankaráðanna og bankastjórnanna um að þeir stemmi stigu við útlánum? Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að koma hingað og segja að með þeim hætti sé verið að grípa fram fyrir hendur markaðarins vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur einmitt á síðustu vikum gefið bankaráðunum beinar skipanir sem varða þróun þeirra. Ég á við, herra forseti, þá skipun sem hæstv. viðskrh. gaf bankaráðum Landsbanka og Búnaðarbanka fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að sameina bankana. Það er auðvitað ekkert annað en inngrip í þróun þeirra og markaðinn.