Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 15:04:06 (978)

2000-10-31 15:04:06# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta mál sagði hv. þm. réttilega að ákvörðunin hefði verið tekin í febrúar. Það er rétt. Þá voru fjárlög afgreidd fyrir yfirstandandi ár. Hins vegar hafði þetta mál verið rætt hér fyrr. Ég get flett því nánar upp en ég man að það var oftar en einu sinni gerð grein fyrir áformum í þessu efni í umræðum um utanríkismál og í fjárlagaumræðu hvað væri fram undan í þessu því málefni sendiráða hafa verið rædd mjög mikið varðandi fjáraukalög og fjárlög.

Ég vara við því að blanda einskiptisaðgerðum eins og þessari saman við rekstrarútgjöld ríkissjóðs í tryggingakerfinu eða lyfjum þó ég sé síður en svo að draga úr mikilvægi þeirra mála. Við erum náttúrlega alltaf með þessa málaflokka inni í fjáraukalögum eins kemur fram. En hér er um að ræða fjárfestingu, hér er um að ræða einskiptisaðgerð og hér er um að ræða fjárfestingu sem kannað hefur verið að borgar sig miðað við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar á Alþingi um þetta mál.