Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 16:03:36 (985)

2000-10-31 16:03:36# 126. lþ. 16.9 fundur 115. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Flutningsmenn ásamt mér eru þrír aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, þær Guðrún Ögmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir.

Ályktunargreinin orðast svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að gera úttekt á lögum sem varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem staðfestur hefur verið af hálfu Íslands. Þá geri nefndin í sama tilgangi úttekt á framkvæmd laga sem snúa að börnum. Einnig verði metið hvort rétt sé að lögleiða sáttmálann í heild sinni eins og mannréttindasáttmála Evrópu. Nefndin verði m.a. skipuð fulltrúa Barnaverndarstofu, Barnaheilla og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Nefndin skili tillögum um úrbætur fyrir 1. maí 2002.``

Herra forseti. Ég vil taka fram að þessi tillaga er flutt í þriðja sinn. Hún var fyrst lögð fram á 121. löggjafarþingi. En hún er jafntímabær í þetta sinn og hin tvö fyrri. Tímabært er að fjalla um barnasáttmálann í heild sinni, um forsendur hans og áhrif á íslenska löggjöf frá gildistöku hans og meta hvort setja þurfi lög, breyta lögum eða bæta réttarframkvæmd svo að réttindi barna sem viðurkennd eru í sáttmálanum verði tryggð í íslenskum rétti. Samningurinn sem tók gildi 20. nóvember 1989 öðlaðist gildi er Ísland varðar 27. nóvember 1992.

Þessi tillaga um bætta réttarsöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fellur að annarri tillögu sem var til umræðu hér í gær, um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga, en þar er 1. flm. Jóhanna Sigurðardóttir. En sú tillaga er jafnframt flutt af þingmönnum þverpólitískt úr öllum flokkum. Þar er verið að leggja til að undirbúin verði heildstæð og samræmd opinber stefna í málefnum barna og unglinga til að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og skapa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska.

Segja má að til þess að sú vinna verði farsæl þá sé eðlilegt að fara yfir barnasáttmálann til að byrja með og síðan fella hann að þeirri undirbúningsvinnu sem þarna er fjallað um. Og herra forseti, svo sannarlega er mikilvægt að taka á málefnum barna eins og málum er nú komið.

Fljótlega eftir undirritun samningsins af hálfu Íslands var hafist handa við að laga íslenskan rétt að ákvæðum barnasáttmálans og þá voru gerðar ýmsar réttarbætur í því sambandi, m.a. lögfest ákvæði þar sem segir að börnum skuli í lögum tryggð vernd og umönnun. Með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, fluttist yfirstjórn barnaverndarmála úr höndum menntamálaráðuneytis til félagsmálaráðuneytis, starfsháttum barnaverndarráðs var breytt og lögfestar voru reglur um starfshætti og málsmeðferð barnaverndarnefnda.

Það kemur líka fram þegar skoðaðar eru töflur sem m.a. fylgja með í greinargerð með þessari tillögu að það er í barnaverndarmálunum sem við höfum staðið okkur best í samanburði Norðurlandanna. En þó að við höfum tekið á fljótlega eftir undirritun samningsins þá er í mörgu ábótavant enn og nauðsynlegt er að barnasáttmálinn verði fyrirmynd að okkar löggjöf í málefnum barna og að við sýnum það í verki að viljum fullgilda og staðfesta þennan samning.

Með þessari tillögu er það náttúrlega alveg ljóst að við flutningsmenn teljum að enn þá skorti á að íslenskur réttur uppfylli ákvæði barnasáttmálans og að lagaframkvæmd sé ekki enn í samræmi við anda sáttmálans, þ.e. að börn og ungmenni innan 18 ára aldurs njóti þeirrar verndar sem sáttmálanum er ætlað að veita en öðlist smám saman stöðu fullorðinna með tilheyrandi ábyrgð og skyldum. Og það er þess vegna sem mælt er fyrir um þá vinnu sem hér er lögð til.

Á liðnum vetri var hér umræða um skýrslu utanrrh. og í þeirri skýrslu var vísað til þess að búið væri að gera viðbótarsamning við barnasáttmálann og í skýrslunni var þess getið í kafla um málefni barna og barnasáttmálann hversu mikilvægur hann væri og sérstaklega er getið um þennan viðbótarsamning sem gerður var í janúar, um að börnum yngri en 18 ára væri óheimil þátttaka í vopnuðum átökum og þótti mjög mikill áfangi að ná þessu inn í viðbótarsamningi.

Það kom líka fram að alls staðar er hvatt til framkvæmdar barnasáttmálans og sömuleiðis í umræðu um Norðurlandaskýrsluna sem utanrrh. lagði jafnframt fram. Þar kom fram að í Norðurlandaráði hefur verið rætt mikið um málefni barna og að Norræna ráðherranefndin hefur verið að vinna með þessi mál og sömuleiðis norðurnefndin í Norðurlandaráði og þar hafa mörg spennandi verkefni varðandi börn verið tekin fyrir. Norræna ráðherranefndin hvatti til framkvæmdar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og bæði í Norðurlandaskýrslunni og í skýrslu utanrrh. til þingsins var barnasáttmálanum og stöðu barna gerð umtalsverð skil. Þess vegna átti ég von á því, herra forseti, að þverpólitísk samstaða næðist um það að þessi tillaga næði fram að ganga í vor, en því miður varð ekki svo.

Ég vil hins vegar taka það fram að fyrir utan tillögu um heildarstefnumörkun í málefnum barna og það að yfirfæra barnasáttmálann og gera úrbætur í lögum í samræmi við hann, hefur Samfylkingin freistað þess að þoka aðskildum málum fram með því að flytja frv. um þau sérstaklega í von um að ná úrbótum í mikilvægum málaflokki, þ.e. að það væri von til þess að e.t.v. væri hægt að samþykkja eitt og eitt af þessum góðu málum þó svo að ekki náist fram það sem auðvitað er mikilvægast, að yfirfara barnasáttmálann og búa til heildarstefnumörkun í málefnum barna. Þegar ég segi að við höfum verið með aðskilin mál þá mundi ég vilja drepa á nokkur þeirra, með leyfi forseta, til þess að draga athygli að því að við höfum virkilega skoðað þessi mál og hversu mikilvæg þau eru.

Þar mundi ég nefna frv. um að refsivert sé að framleiða og dreifa barnaklámi, frv. um að barni verði skipaður talsmaður ef ágreiningur verður um umgengni barns við annað foreldri, frv. um vandaða skilnaðarlöggjöf við hjónaskilnað og sambúðarslit og frv. sem á rætur í barnasáttmálanum eins og fyrr segir, um að tryggja skuli barni sem getur myndað eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og taka réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Sömuleiðs vil ég nefna frv. um rétt til stjúpættleiðinga og frv. um breytingu á barnalögum um að auka rétt feðra gagnvart börnum sínum sem hafa fæðst utan hjúskapar og tillögu um bætta stöðu þolenda kynferðisafbrota, einkum barna og unglinga, aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna og eru þá ekki nefndar fjölmargar fyrirspurnir sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram um mál sem þarf að þoka fram og sem hefur verið hreyft og er verið að inna eftir framkvæmd á. Þannig hefur Samfylkingin lagt verulega áherslu á málefni barna í vinnu sinni, bæði sl. haust, á sl. vetri og enn á ný á þessu hausti. Auðvitað væntum við þess að eitthvað af þessum málum nái fram að ganga ef stjórnarflokkarnir meina eitthvað með því að þeir séu sammála um mikilvægi þessara mála.

Á bls. 5. í þeirri tillögu sem ég er að mæla fyrir um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að finna nokkrar töflur. Þar eru nýjar tölur sem ég hef aflað mér til þess að vera með ferskar upplýsingar um samanburð á framkvæmd okkar við önnur Norðurlönd. Ef við byrjum á því að skoða hvert sé hlutfall íbúa 0--17 ára á Norðurlöndunum af heildaríbúafjölda árin 1993--1998 þá kemur auðvitað í ljós það sem við vitum. Þessi hópur er 28% af heildaríbúafjölda á Íslandi en samanburðarhópurinn fer niður í 21% í Danmörku. Ef við skoðum útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum sem renna til fjölskyldna og barna árin 1993--1998 sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu þá er hlutfall á Íslandi 2 en á öllum öðrum Norðurlöndum utan Finnlands er það 4, helmingi meira sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, og Finnland liggur í þremur.

Ef við skoðum útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum sem renna til fjölskyldna og barna í svokölluðum jafnvirðisgildum á íbúa á árunum 1995--1998, og þar eru upphæðirnar settar fram í ekum, þá liggur tala Íslands í 480 á meðan hin Norðurlöndin eru með 636, 688, 800 og 835. Þetta er auðvitað fullkomlega óviðunandi, að við skulum vera svona slök í norrænum samanburði og ég vek athygli á því að þessar upplýsingar eru frá Hagstofu Íslands og úr bæklingunum Social tryghed i de nordiske lande og Nordisk Social-Statistisk Komité, þannig að þetta eru ekki tölur sem stjórnarandstaðan er að búa til. Þetta eru faglegar upplýsingar, samanburðartölur úr Norðurlandasamstarfi.

[16:15]

Fróðlegt er að skoða það og útgjöld til dagvistarmála á Norðurlöndum í jafnvirðisgildum á íbúa á sama tíma, 1995, og upphæðir í ekum. Þar erum við með 171 á meðan t.d. Danmörk er með 383 en það sem vekur athygli er að Noregur er með sömu tölu, 171. Ef við lítum á árið á undan þá er Noregur með 209 og er freistandi að ætla að breyting, sem gerð var í Noregi á þeim tíma um að byrja að greiða foreldrum beint upphæð til að vera heima ef þeir nýta sér ekki þjónustu eins og leikskólann, hafi þarna áhrif á tölurnar, að inni í þessari tölu séu að sjálfsögðu ekki beinar greiðslur til þess fólks sem þar með freistast til þess að veita barninu ekki þann viðbótaruppeldisþátt sem leikskólinn er.

En ef við skoðum svo útgjöld til barnaverndarmála á Norðurlöndum í jafnvirðisgildum á íbúa á sama tíma, 1995--1998, þá byrjum við að standa okkur vel, þar er Ísland með 38, Danmörk að vísu með 107 en síðan eru hin löndin með 56, 22 og 22. Þarna stöndum við okkur sæmilega vel og þarna byrjuðum við að gera breytingar um leið og við vorum búin að fullgilda barnasáttmálann. Við höfum tekið okkur á bæði í verkefnum félmrn., nefna má að Barnaverndarstofu var komið á, mörgum meðferðarheimilum sem varða uppeldi og aðbúnað barna að ógleymdu Barnahúsinu sem mörg okkar berum fyrir brjósti en nú er hætta á að verði látið víkja í pólitískri togstreitu.

Herra forseti. Þetta eru afar mikilvæg mál og það að taka á í málefnum barna er eitthvað allt annað en bara að tala í þessum sal um það hvernig við viljum hafa hlutina ef við meinum ekkert með því. Ef við fullgildum barnasáttmálann skuldbinda íslensk yfirvöld sig til að tryggja íslenskum börnum öll réttindi samkvæmt sáttmálanum. Ég hef tekið það fram að ákveðin skref hafa verið stigin í átt til réttarbótar en samkvæmt íslenskum rétti fá alþjóðlegir samningar ekki sjálfkrafa lagagildi að landsrétti þó þeir hafi verið fullgiltir heldur eru þeir skuldbindandi að þjóðarrétti. Sáttmálinn hefur ekki verið lögfestur á Íslandi og því er ekki hægt að beita honum fyrir íslenskum dómstólum. Samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum verða íslensk lög skýrð með hliðsjón af alþjóðalögum en íslensk lög ganga ávallt fyrir alþjóðalögum séu þau ósamrýmanleg. Því er mikilvægt að lögleiða sáttmálann í heild sinni og gera með því réttindum barna hér á landi hærra undir höfði en nú er.

Það er hins vegar ekki tillagan í þessari till. til þál. heldur að bæta réttarstöðu barna samkvæmt sáttmálanum og að skipa nefnd sem geri úttekt á lögum og beri þau saman við barnasáttmálann til að við tökum á í þessum málum.

Auðvitað mun sumt af því sem þarna er tekið á kosta eitthvað en í mörgum tilvikum, eins og kemur fram í upptalningu minni á þeim sértæku málum sem við höfum flutt tillögur og frumvörp um, kostar það ekki endilega mikið heldur er um að ræða réttindamál sem tryggja hag barna okkar í þjóðfélaginu, mikilvægasta verkefni samtímans.