Bætt réttarstaða barna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 16:28:58 (988)

2000-10-31 16:28:58# 126. lþ. 16.9 fundur 115. mál: #A bætt réttarstaða barna# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það afar jákvætt og mikilvægt að fá viðbrögð formanns allshn. við þeirri mikilvægu tillögu sem er til umræðu vegna þess að þangað fara báðar þær tillögur sem hv. þm. nefndi. Ég vil nefna það að þegar ég var með í undirbúningi þá tillögu sem hv. þm. nefndi, um heildarstefnumótun í málefnum barna, þá vann ég hana í samráði við umboðsmann barna. Þá lá fyrir tillagan um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við ræddum einmitt það sem hv. þm. nefndi og hvort hér væri ekki um sjálfstæða tillögu að ræða sem mundi þá standa og ætti rétt á því að standa alveg sjálfstæð og væri eðlilegt að hún gerði það af því hér eru mjög víðtæk skilyrði sem við þurfum að uppfylla samkvæmt barnasáttmálanum. Það varð niðurstaða okkar eftir að hafa farið yfir málið að eðlilegt væri að samþykkja sérstaklega þá tillögu sem við erum hér að ræða, um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, og skoða sérstaklega og gera úttekt á ýmsum lögum sem varða réttarstöðu barna til þess að uppfylla skilyrði barnasáttmálans. Hitt væri sérstakt verkefni sem sneri að mörgum ráðuneytum, að undirbúa heildstæða, samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga sem síðan yrði grundvöllur að framkvæmdaáætlun. Sú úttekt sem hér er gert ráð fyrir er eðlilegt að komi sem sjálfstætt verkefni og mun örugglega treysta mjög það verkefni sem yrði síðan unnið í stjórnsýslunni um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.