Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:01:24 (994)

2000-10-31 17:01:24# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að koma inn á þessi atriði. Málið snýst miklu frekar um það almennt séð að við stillum okkur saman um það hvenær við viljum hefja störf á morgnana og hvenær við viljum ljúka störfum á daginn, þ.e. á hvaða tíma sólarhringsins við vinnum og á hvaða tíma sólarhringsins við tökum okkur frítíma. Til þess eru í grundvallaratriðum tvær leiðir. Önnur leiðin gengur út á það að við mundum t.d., ef við teldum það skynsamlegt á annað borð, öll þjóðin og allir vinnustaðir, taka okkur til síðasta sunnudaginn í mars og hefja vinnu klukkutíma fyrr en við gerum venjulega og ljúka vinnudeginum klukkutíma fyrr en við gerum venjulega. Þetta væri í sjálfu sér ein leið til að skipuleggja vinnu og störf alls þjóðfélagsins á einu bretti.

Málið er einfaldlega að það er nokkuð flókið og í sjálfu sér viðurhlutameira. Þess vegna hafa aðrar þjóðir farið þá leið að færa klukkuna fram á vorin og færa hana svo til baka á haustin sem gerir alla þessa skipulagningu miklu þægilegri en ella. Þetta er nákvæmlega það sem tillagan gengur út á, þ.e. að við förum að dæmi annarra sem eru í kringum okkur og tökum daginn fyrr á sumrin og ljúkum þess vegna vinnu fyrr á daginn á þeim tíma og reynum að nýta okkur þá birtu og þann yl sem er þó að finna á þessum tíma.