Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:05:44 (996)

2000-10-31 17:05:44# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:05]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er illt í efni ef hv. þm. skilur þetta svona herfilega illa. Málið snýst einfaldlega um það að mjög margir vilja vakna og hefja vinnu fyrr á morgnana á þessum tíma. Því er velkomið, heldur hv. þm. fram, að gera svo, en þá snýst málið um samstillingu þjóðfélagsins í heild. Það þýðir ekki nema að ákveðnu marki að hver og einn ákveði á hvaða tíma hann vinnur og vinnur ekki og á hvaða tíma menn taki sér frí. Þetta er svipað og með umferðarreglurnar, að menn velja sér umferðarreglur. Þær geta verið mismunandi heppilegar fyrir hvern og einn en einhverjar umferðarreglur verðum við að hafa og einhverjar reglur verðum við að hafa í þessu líka. Ef einhver vinnustaður vill t.d. hefja störf klukkan sjö á morgnana þarf öll þjónusta í kringum þann vinnustað að vera til staðar. Það þýðir ekkert að koma og halda því fram að einn vinnustaður geti byrjað klukkan sjö og annar klukkan ellefu eða tólf. Það er einfaldlega þannig að þjóðfélagið stillir sig af nokkurn veginn þannig að allir byrja störf á svipuðum tíma og ljúka störfum á svipuðum tíma. Barnaheimili og skólar eru opin á svipuðum tíma og þess vegna verðum við að finna einhverja leið í þessu. Einfaldasta leiðin og sú leið sem menn hafa yfirleitt farið er að nota klukkuna, þ.e. að færa hana fram og til baka, til að ná þessu markmiði.