Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:34:15 (1003)

2000-10-31 17:34:15# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að hagsmunir viðskiptalífsins eru líka hagsmunir fólks. Það vill svo til að í fyrirtækjum í landinu vinnur fólk sem þarf á því að halda að halda góðum samskiptum við Vestur-Evrópu. Ég vona að hv. þm. taki eftir því þegar hann kemur í fyrirtæki að þar vinnur fólk. Það er ekki hægt að segja að viðskiptalíf sé eitthvað annað en líf og starf fólksins í landinu.

En ég vek athygli hv. forseta á því að hv. þm. svaraði alls ekki þeim spurningum sem var beint til hans. Hann var beðinn um að skýra út hvort það hefði slæm áhrif á geðheilsu manna, í ljósi þess sem hann hefur sagt, að fólk almennt breytti vinnutíma sínum á sumrin. Þá þarf fólk að taka sig til og vakna fyrr, breyta vökutíma sínum og svefni út frá líkamsklukku sinni. Hvernig stendur á því að það er ekki allt vitlaust að gera hjá geðlæknum á sumrin?

Svo svaraði hv. þm. heldur ekki spurningunni um hvort geðheilsa fólks hefði batnað við breytinguna árið 1968?