Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:38:11 (1006)

2000-10-31 17:38:11# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er í annað sinn komið inn á það að hagsmunir fólksins og viðskiptalífsins fari saman. Ég dreg það svo sem ekki í efa. En í grg. á einum stað segir að meginástæða þess að þetta sé lagt fram sé vegna viðskipta við útlönd, að þá sé nær því að skrifstofutími á Íslandi sé sá sami, aðeins klukkutímamunur, á milli Evrópulanda. Þetta er eitt af meginatriðum sem er vitnað til í greinargerðinni.

Ég tel að ef þeir sem stunda verslun og viðskipti telja að ástæða sé til þess að breyta klukkunni og raska tíma Íslendinga vegna viðskipta, þá sé of langt gengið. Þá er gengið á hagsmuni landans vegna hagsmuna 300--400 aðila sem eiga í miklum samskiptum við fyrirtæki í Evrópu. Það er líka gengið á hagsmuni þeirra sem eiga viðskipti við Bandaríkin og Japan.

Meginatriðið er, hvar svo sem menn vilja finna mínum orðum stað, að miðað við hnattstöðu landsins er tímareikningurinn rangur í dag svo munar einni klukkustund. Hann er skakkur sem nemur einni klukkustund í dag. (Gripið fram í: Einni og hálfri.) Með því að færa klukkuna enn frekar til þá skekkjum við dæmið enn frekar.