Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:40:03 (1007)

2000-10-31 17:40:03# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar hér áðan að hann ræddi mikið um lífsklukkuna, hvaða áhrif hún hefði á landann. Spurt hefur verið hvort geðheilsa Íslendinga hafi eitthvað skánað 1968 þegar við hættum að breyta klukkunni en frekar lítið verið um svör.

Ég vil aðeins spyrja hv. þm. út í lífsklukku ferðamanna. Ferðamennska er nú vaxandi atvinnugrein og viðskiptalífið hefur hag af henni sem og land og þjóð og þar með talinn almenningur. Hefur lífsklukka ferðamanna þarna engin áhrif? Áðan kom fram að ferðamenn fara yfirleitt snemma að sofa. Þeir fara líka á fætur, kannski eftir lífsklukku sinni, á þeim tíma sem þeir eru vanir. Við höfum séð hvernig ferðamenn reyna að drepa tímann, kannski frá fimm til sjö að íslenskum tíma, svona fram að morgunmat. Hvað segir hv. þm. um lífsklukku ferðamanna? Er þetta ekki slæmt fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi, að við skulum búa við þennan tímamismun?