Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:21:36 (1018)

2000-10-31 18:21:36# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar mikilsverðu upplýsingar. Það mun hafa komið hér fram í ræðu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar að það væri ekki efni þessa frv. að breyta sólarganginum. Það er nú aldeilis innlegg í þetta mál. Mér er stórlega létt og tel þetta náttúrlega mjög mikilsvert.

Að taka daginn fyrr og hætta fyrr --- já, það er nefnilega það. Hér eru ákveðnar þjóðarvenjur og siðir sem Íslendingar hafa mótað sér og þær eru eins og þær eru. Ég hef auðvitað oft upplifað þennan mun þegar ég hef verið búsettur annars staðar eða ferðast á milli landa. Það er t.d. alveg sláandi munur á Íslendingum annars vegar og Svíum hins vegar hvað þetta varðar, að dagurinn er tekinn seinna hér og menn rölta lengur fram eftir á kvöldin. En þannig er það hjá okkur. Ég sé ekki að rétta aðferðin til að breyta því, ef menn eru ósáttir við þessi þjóðareinkenni okkar, sé að þvinga það fram með því að skekkja klukkuna. Eru menn í raun og veru að segja að þeim finnist að Íslendingar eigi að hegða sér öðruvísi en þeir hegða sér og þá eigi að þvinga það fram með því að skekkja klukkuna?

Ef menn telja að betra væri fyrir þjóðina almennt að hjól atvinnulífsins og samfélagsins færu fyrr af stað á morgnana og menn tækju sér hvíld fyrr síðdegis þá væri miklu betra að ná því fram með breytingum í þjóðfélaginu, í gegnum kjarasamninga, gegnum opnunartíma opinberra stofnana, þjónustustofnana o.s.frv., en ekki með því að hafa kolvitlausa klukku. Það held ég að sé bara ekki skynsamleg nálgun.

Varðandi hagsmuni ferðaþjónustunnar er það auðvitað alveg rétt að ýmislegt væri þægilegra í samskiptum ferðaþjónustunnar við Evrópu ef við værum þar á sama tíma. En að sama skapi er meira óhagræði að því þegar kemur að samskiptum í vesturátt. Sé það sameiginlegt álit allrar ferðaþjónustunnar að það séu hagsmunir hennar að breyta þessu þá er ég ósammála því. Ég leyfi mér að hafa þá skoðun þó að ég reki ekki ferðaskrifstofu eða því um líkt.