Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:27:45 (1021)

2000-10-31 18:27:45# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á hv. þm., 3. þm. Norðurl. e., í öllum þeim mótrökum sem hann tínir hér til fyrir þessu máli. Eitt af því sem fram kom hjá honum voru birturökin, um sólarganginn, að það væri bjart alla nóttina í júlímánuði, sem er ekki nýtt. En það kom fram hjá hv. þm. að sólin væri drifkraftur lífsklukkunnar og það er alveg hárrétt. En e.t.v. er það tilgangurinn með frv., að færa tímann aðeins til svo að menn geti notið sólarinnar aðeins lengur og betur.

Hvað með það fólk sem býr í þröngum fjörðum vítt og breitt um landið og lýkur vinnu klukkan, við skulum segja sex? Það er ekki mikill tími eftir af deginum til að njóta sólarinnar, drifkrafts lífsklukkunnar eins og hv. þm. komst hér að orði. Það er einmitt verið að fjalla um það í þessu frv., sem okkur flutningsmönnum er alveg dauðans alvara með. Við viljum gefa fólki kost á að hlaða batteríin með sólinni og að fólk geti komið heim úr vinnu og notið hennar í stað þess að koma heim úr vinnu þegar sólin er komin niður fyrir fjallahring. Það er akkúrat málið.