Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:50:09 (1026)

2000-10-31 18:50:09# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Röksemdafærslan hjá hv. flm. frv. til að sveigja menn inn á fylgispekt við framkvæmd þessa er alveg með ólíkindum. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, sú mæta kona af Austfjörðum, heldur því fram að útivist muni aukast og viðskiptalífið blómgast sem aldrei fyrr ef tímanum verði breytt og klukkunni flýtt um einn klukkutíma.

Ég átta mig ekki á því hvernig menn geta fengið sig til að tala svona. Allir vita að viðskipti Íslendinga eru um allan heiminn, þau eru jafnt við Japana sem Bandaríkjamenn og Evrópubúa, þannig að vera að tönnlast á þessu svona fram og til baka er eiginlega óskiljanlegt og halda því síðan fram að lambakjötið muni seljast betur og garðlífið verði betra og ástarlífið blómlegra, þetta er náttúrlega bara orðinn einn farsi.

Ég velti því einnig fyrir mér, herra forseti, það er á bls. 4 í þessari greinargerð, þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Írar hafa sumartíma og þeir sem búa á vesturströndinni eru því í mjög svipaðri stöðu gagnvart nýtingu birtunnar og Austfirðingar væru ef Ísland fylgdi sama tímareikningi og Írland. Ekki hafa borist neinar spurnir af því að geðheilsa íbúa vesturstrandar Írlands sé sérstaklega slæm eða að þar séu svefntruflanir meðal almennings meiri eða heilsufar almennt verra en gengur og gerist. Þvert á móti er mikill efnahagslegur uppgangur á vesturströnd Írlands og þar hefur tekist mun betur að skapa ný störf og laða að fólk en á Austurlandi, þrátt fyrir sumartímann.``

Ég spyr því, herra forseti, er geðheilsa Austfirðinga eitthvað verri en almennt gerist? Er hún verri en Íra? Ég ætla að spyrja hv. þm. að því, herra forseti. Ég spyr einnig: Er atvinnulíf Austfirðinga verra vegna þess að tíminn er einum klukkutíma aftar en hv. þm. óskar eftir?