Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:54:37 (1028)

2000-10-31 18:54:37# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:54]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta hv. þm. að breiddin hefur ekkert með tímann að gera, heldur er það lengdin og lengd Íslands er, ef við miðum við Reykjavík, 24 gráður. Við ættum að vera tæpum tveim tímum frá meðaltíma Greenwich.

Ég ætla bara að endurtaka, herra forseti, að það stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Þvert á móti er mikill efnahagslegur uppgangur á vesturströnd Írlands og þar hefur tekist mun betur að skapa ný störf og laða að fólk en á Austurlandi, þrátt fyrir sumartímann.`` Mér finnst svo makalaust að koma með þetta í greinargerð að það er engu líkara en það bjargi Írum í atvinnulífinu að tíminn hjá þeim sé eitthvað öðruvísi en hér. Er virkilega svona slæmt ástand á Austfjörðum að menn þurfi að draga fram einhverjar slíkar hártoganir eða fullyrðingar sem gera ekkert annað í sjálfu sér en gera menn enn ruglaðri í öllu þessu máli en þörf er á?