Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:57:01 (1030)

2000-10-31 18:57:01# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:57]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp til að taka undir röksemdafærslu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur þar sem hún var að ræða um þjónustuna við fólkið og hvernig sum fyrirtæki hafa breytt afgreiðslutímum sínum því að víða breytist sumartíminn yfir í að byrja kl. 8 og er þá vinnutími til kl. 4 en vetrartíminn er þá frá kl. 9--5 og fiskvinnslufólkið byrjar yfirleitt kl. 7 á morgnana og er þá jafnvel hætt í vinnu kl. 3. Það skiptir miklu máli því að atvinnulífið er allt samtengt og hvert fyrirtæki tekur mið af öðru varðandi afgreiðslutíma.

Sumartíminn hefur mikil áhrif og góð áhrif á mannlíf víða á landsbyggðinni og ekki sakar það að ef við getum aukið söluna á lambakjötinu, ekki veitir okkur af, og við skulum ekki gleyma því að sumarkvöldin og sumarnóttin er einstök á Íslandi.