Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 18:58:19 (1031)

2000-10-31 18:58:19# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að ræða bara um jákvæða þætti þessa máls og gleyma neikvæðu þáttunum. Ef við breytum klukkunni með þeim hætti sem hér er lagt til til að skapa okkur meiri birtu í eftirmiðdaginn þýðir það meira myrkur vor og haust að morgni dags. Þá þýðir það að börnin okkar fara í meira myrkri í skólann ákveðinn hluta ársins. Þá þýðir það að allt útivinnandi fólk hefur vinnu í meira myrkri en ella, t.d. fólk í byggingariðnaðinum sem vinnur mikið úti. Við megum ekki taka þetta þannig að við séum öll lokuð inni í sölum og það skipti okkur engu máli hvað gerist nema bara í þessa klukkutíma í eftirmiðdaginn eftir að við höfum lokið vinnu. Það er ekki þannig að öll þjóðin labbi út af vinnustað sínum og setjist niður við að grilla lambakjöt og drekka rauðvín í sólskini og þetta snúist bara um svoleiðis hluti. (Gripið fram í.) Þannig er þetta upp sett. Mikið var rætt um það í fyrra eða hittiðfyrra þegar ónefndur flutningsmaður var að tala um að þetta mundi auka sölu á lambakjöti og ég held að hann hafi verið upphafsmaður að því að taka þetta inn í umræðuna.

Rök sem menn sækja sér í skýrslur Evrópusambandsins hvað varðar öryggi, orkusparnað eða aðra slíka hluti eiga ekki við á Íslandi. Það er barnalegt að jafna því saman sem gerist á milli 60. og 40. breiddargráðu við allt aðrar birtulegar aðstæður og líka vegna þess að klukkan á Íslandi er þegar vitlaus. Hún er þegar skökk um einn og hálfan til tvo tíma.

Þetta mál, herra forseti, snýst auðvitað um tvennt. Um það hvort við viljum hafa sumartíma og svo um það hvernig við viljum stilla klukkuna af á Íslandi, hvort hún eigi að fylgja sólarúrinu í grófum dráttum eða ekki. Ég skil út af fyrir sig rök t.d. sumra fyrirtækja sem segja að það væri til bóta að tímamismunurinn milli Íslands og Evrópu væri alltaf sá sami allt árið. En það eru ekki rök fyrir þessari aðferð að hafa klukkuna skakka um næstum þrjá tíma á Íslandi, og ég held að það sé gengið býsna langt í því að túlka þessi rök ákveðinna fyrirtækja og aðila í viðskiptalífinu sem meðmæli með þessu frv. Það er sú aðferð sem hér er lögð til sem ég er mest á móti, ekki í sjálfu sér spurninguna um sumartíma og ekki sumartíma.