Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:20:57 (1044)

2000-10-31 19:20:57# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er mjög áliðið dags. Ég minnist þess að þegar þetta mál kom fyrir 125. og 122. löggjafarþing var líka mjög áliðið kvölds og er það miður því að málið er merkilegt. Það er þverpólitískt og þarf vissulega umræðu við í Alþingi.

Það sem kemur mér mest á óvart er þegar ég hlusta á flutningsmenn þessa máls tala um þá bábilju að hér sé verið að taka upp sumartíma. Ég verð að benda á það í lokaorðum mínum að með lögum sem sett voru á Alþingi 1968 þegar hringli með klukkuna var hætt, segir að þessi lög sem sett voru á Alþingi hafi fest sumartímann í sessi. Það gilda lög um sumartíma þannig að hv. þm. eru að tala um eitthvað annað en það sem er satt og rétt.

Í greinargerðinni er tvennt sem ég vildi vitna til. Þar segir m.a. svo, með leyfi forseta:

Athuganir framkvæmdastjórnarinnar`` --- þ.e. Evrópusambandsins --- ,,leiddu í ljós að engin meiri háttar vandamál væru því samfara að viðhalda sumartíma í Evrópusambandinu þó að til séu þeir sem telja breytingar hafa óþægindi í för með sér.

Í annan stað, með leyfi forseta:

,,Allar ályktanir sem dregnar verða af skýrslunni benda til þess að kostir þess að viðhalda sumartíma í Evrópusambandinu og nágrannalöndum þess séu yfirgnæfandi.``

Þegar þessi texti er lesinn, eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson hefur bent á, þá má lesa það út úr textanum að þetta er ekki jákvætt, en þó ekki heldur afar slæmt. Það má eiginlega lesa úr því sem flutningsmenn hafa sett hér á blað.

Ég vildi líka geta þess að ekki eru margir mánuðir síðan að fram fóru skoðanakannanir í Frakklandi. Ég nefndi í ræðu minni fyrr í kvöld að Frakkar væru andvígir þessu og það kom fram fyrir þremur árum að forsætisráðherra Frakka væri á móti þessu hringli með klukkuna. Síðan hafa farið fram skoðanakannanir meðal Frakka og þær sýndu að 72% þjóðarinnar eru á móti þessu hringli með klukkuna og vilja festa klukkuna við tíma með sama hætti og Íslendingar gera. Það er dálítið merkilegt.

Að lokum vil ég segja að mér finnst tilhlýða, herra forseti, í umræðunni, svo að í þingskjöl komist þessi vinsæla vísa eftir Piet Hein í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Það er ágætt að enda umræðuna með þessu:

  • Ef klukkan er eitt hjá okkur
  • þá er hún á Spáni tvö,
  • en átta á Indlandsskaga
  • og austur hjá Volgu sjö.
  • Hve gæfan er okkur örlát
  • sem ekki verðskuldum neitt
  • að kjósa okkur land með þeim kostum
  • að klukkan er eitt klukkan eitt.
  • (Gripið fram í: Hún er ekki eitt klukkan eitt.)