Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:40:57 (1048)

2000-11-01 13:40:57# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:40]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Kjaradeilur eru alltaf vandmeðfarin mál en í þeirri deilu sem hér er rætt um er staðan óvenjuflókin að þessu sinni. Framhaldsskólakennarar gera kröfu um 34% hækkun dagvinnulauna við undirskrift samnings og síðan 15% hækkun á ári næstu tvö árin. Þessar kröfur eru nærri því tífalt það sem um hefur samist í almennum kjarasamningum á þessu ári og fimmfalt það sem félagar í almennum verkalýðsfélögum hafa samið um fyrir næstu tvö ár.

Til glöggvunar má geta þess að heildarlaun framhaldsskólakennara fyrstu níu mánuði þessa árs voru að meðaltali rúm 220 þús. samkvæmt upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna. Þar af var dagvinnuhlutinn, eins og hann er skilgreindur í samningum kennara, talinn um 135 þús. Launakröfur kennara, eins og fram kom í máli málshefjanda, eru rökstuddar með tilvísun til launaþróunar annarra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna á síðasta samningstímabili, þ.e. frá 1997. Í þeim samanburði er þó einungis tekið tillit til þróunar dagvinnulauna en ekki heildarlauna þar sem allt önnur niðurstaða fæst.

Í þeim samningum sem aðrir háskólamenn gerðu á haustinu 1997 voru í flestum tilfellum gerðar miklar breytingar á uppbyggingu kjarasamninganna með nýrri röðun í ramma og tilkomu svokallaðra aðlögunarsamninga. Þeir fólu m.a. í sér aukinn hlut dagvinnu á kostnað annarra greiðslna sem aftur hafði í för með sér stóraukin lífeyrisréttindi starfsmanna.

Það er óumdeilt að margir hópar ríkisstarfsmanna höfðu verulegan hag af þessari kerfisbreytingu. Breyting af þessu tagi stóð framhaldsskólakennurum einnig til boða árið 1997 en þeir höfðu þá ekki hug á slíkri breytingu og höfnuðu henni. En hún stendur kennurum enn til boða í yfirstandandi samningum.

Einn helsti vandinn sem nú er við að fást í kjaradeilu kennara er ekki síst að uppbygging kjarasamninga þeirra er ekki lengur í takt við tímann og dagvinnuhluti launanna lágur miðað við yfirvinnuhlutann. Ástæðan er ekki síst sú að verkþættirnir eru fastbundnir mati á vinnutíma og ekki sambærilegt svigrúm til skipulagningar og vinnuhagræðingar og víða í öðrum kjarasamningum. Þess vegna er greitt fyrir drjúgan hluta af vinnuframlagi kennara sem yfirvinnu þótt vinnan sé unnin á hefðbundnum dagvinnutíma.

Um þetta kerfi ríkti löngum ágæt sátt milli kennara og ríkisins en nú er áreiðanlega tímabært að gera grundvallarbreytingar á þessu gamla kerfi. Um það hafa tillögur samninganefndar ríkisins snúist. Ég tel að með slíkum kerfisbreytingum sé unnt að færa kennurum umtalsverðan ávinning á næstu árum og jafnframt hækka hlutfall dagvinnulauna í heildarlaunum þeirra.

Ég tel líka að það sé rétt og nauðsynlegt fyrir skólastarfið í landinu að framhaldsskólakennarar fái slíkan ávinning. Með slíkum breytingum verður að auka sveigjanleika í vinnuskipulagningu en einnig koma til móts við breytta tíma í skólastarfi m.a. með tilliti til nýrrar aðalnámskrár.

Það hljóta allir að sjá að krafa um 34% upphafshækkun launa er ekki raunhæf eða líkleg til að stuðla að farsælli lausn deilunnar. Slík krafa er fremur líkleg til að stefna málum í hnút og leiða til ófarnaðar.

Það er alveg ljóst að til að deila af þessu tagi leysist þurfa báðir aðilar nokkuð á sig að leggja. Að mínum dómi hefur hraðinn í ferli kennara við verkfallsboðun ekki verið í neinu samhengi við framgang viðræðnanna. Almennt séð boða verkalýðsfélög ekki til verkfalla fyrr en viðræður eru komnar í hnút en í þessari deilu var efnt til atkvæðagreiðslu um verkfall eftir einn fund hjá sáttasemjara, áður en formleg kröfugerð var lögð fram. Einhver mundi segja að þetta ferli ásamt sjálfri kröfugerðinni bæri meiri vott um verkfallsvilja en samningsvilja.

Herra forseti. Ég hef lýst því hér á hvaða nótum ég tel að unnt sé að leysa þessa deilu. Til þess að það verði unnt án tjóns fyrir nemendur framhaldsskólanna verða báðir að leggja sig fram. Það mun ekki standa á ríkisvaldinu eða samninganefnd ríkisins í því efni.