Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:50:55 (1051)

2000-11-01 13:50:55# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), PBj
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Framhaldsskólakennarar hafa dregist verulega aftur úr í launakjörum ríkisstarfsmanna með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi. Aðrar ríkisstofnanir og einkafyrirtæki sækjast í vaxandi mæli eftir að ráða kennara til starfa enda um vel menntaða og hæfa starfsmenn að ræða. Nauðsynlegt er að meta kennarastarfið betur til launa en nú er gert og í því felst einnig að bæta vinnuaðstöðu þeirra. Kennsla er afar krefjandi starf og það hefur sýnt sig að sífellt fleiri sérmenntaðir kennarar hverfa úr starfi og erfitt reynist að fá aðra í þeirra stað. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé ríkjandi viðhorf hjá þjóðinni allri að það eigi að gera vel við kennara enda á að gera og eru gerðar til þeirra miklar kröfur.

Herra forseti. Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði. Störfum hefur fækkað í rótgrónu atvinnugreinunum en fjölgað á sviði hátækni og upplýsinga. Því hefur verið spáð að á næstu öld þurfi einstaklingur jafnvel að mennta sig fyrir allt að þrjú störf á ævinni sem kallar augljóslega á miklu öflugra mennta- og starfsmenntakerfi en við höfum í dag. Stjórnvöld slá gjarnan um sig með staðhæfingum um forustu Íslendinga á sviði þekkingar og mannauðs en á sama tíma mega verðandi fulltrúar okkar á þeim vettvangi sæta því ár eftir ár að skólaganga þeirra er sett í uppnám vegna þess að ekki er talið fært að greiða kennurum laun í samræmi við þýðingu starfa þeirra.

Herra forseti. Á sínum tíma var ég mjög á móti flutningi grunnskólans til sveitarfélaga og ég tel enn að þar þurfi að hyggja að afar mörgu. Hins vegar verð ég að bera sveitarfélögum í landinu það að viljann skortir ekki þar til að gera vel við skólakerfið og þá sem þar starfa. Reynslan síðustu daga sýnir að þarna skilur verulega á milli þar sem ríkisvaldið setur skólastarfið í uppnám aftur og aftur og veldur með því tjóni sem seint verður bætt.

Góð menntun verður lykill að framtíðinni og til að tryggja góða menntun verðum við Íslendingar að setja kennara og kjör þeirra í öndvegi svo festa skapist á þessum mikilvæga vettvangi, sömuleiðis að gæta samræmis í yfirlýsingum um forustu á sviði þekkingar og hugvits og aðgerðir til þess að tryggja að svo megi verða.