Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:53:14 (1052)

2000-11-01 13:53:14# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sjaldan hefur hæstv. fjmrh. talað sannara orð en þegar hann sagði áðan að í svona erfiðri deilu þurfi báðir aðilar að leggja allt sitt af mörkum. Hið sérkennilega við þessa deilu er nefnilega það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert lagt af mörkum. Hún hefur ekki gert neitt til að reyna að leysa þennan erfiða hnút. Mér finnst hæstv. fjmrh. hafa sýnt verulegt ábyrgðarleysi með framkomu sinni í málinu og hæstv. menntmrh., sem fer með veggjum og lætur sem þetta mál varði sig ekki, deilir með honum þessu ábyrgðarleysi.

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. talaði um það áðan að kröfur kennara væru miklar. En hverjir eru það sem hafa sett viðmið í þessari deilu? Hverjir eru það sem hafa samið um ákaflega drjúgar launahækkanir til opinberra starfsmanna með svipaða menntun? Það er hæstv. ríkisstjórn. Hver er það sem hefur talað um það hátt og í hljóði að hér ríki ómuna góðæri og gríðarleg velsæld sem menn hafi aldrei séð áður? Það er að sjálfsögðu hæstv. ríkisstjórn. Hver er það sem hefur ítrekað sagt að góðu starfsfólki eigi að launa með góðu kaupi? Það er hæstv. ríkisstjórn. Það er þess vegna hæstv. ríkisstjórn sem hefur með framkomu sinni og yfirlýsingum skapað væntingar framhaldsskólakennara.

Herra forseti. Það hlýtur líka að verka eins og blaut tuska framan í framhaldsskólakennara þegar þeir sjá forgangsröðun íslenskra stjórnvalda í menntamálum. Á sama tíma og það blasir við að hæstv. ráðherrar segja að ekki sé svigrúm að ganga til samninga við framhaldsskólakennara þá er því beinlínis lýst yfir í fjárlagafrv. að á hverju ári eigi að verja u.þ.b. 100 millj. kr. í gæluverkefni á borð við einkavæddan framhaldsskóla. Herra forseti. Þetta er milljarður á einum áratug og á sama tíma er ekki hægt að greiða nægilega góð laun innan framhaldsskólans til þess að halda þar úrvalskennurum.

Herra forseti. Við viljum öll hafa góðan skóla fyrir börnin okkar en til þess að hafa góðan skóla þurfum við góða kennara og til þess að fá góða kennara þá þurfum við að greiða þeim góð laun. Svo einfalt er það.