Ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:19:47 (1069)

2000-11-01 14:19:47# 126. lþ. 18.91 fundur 80#B ummæli formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. forseta, að utandagskrárumræðu er lokið en menn fjalla hér um störf þingsins. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið, að sú umræða sem fram fór hér um kjaradeilu kennara og væntanlega lokun allra framhaldsskóla í landinu var nauðsynleg, mikilvæg og málefnaleg. Þar tek ég m.a. undir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. En ég harma yfirlýsingar formanns þingflokks Sjálfstfl. um þetta efni og þá ekki síður gagnrýni þingflokksformannsins á Alþingi, sem samþykkti í gær að fara að lýðræðislegri venju þegar fram kom beiðni frá tilskildum fjölda þingmanna. Það var samþykkt hér með meiri hluta atkvæða á Alþingi að ganga eftir því við hæstv. viðskrh. að veita svör við tilteknum spurningum. Þar var Alþingi að sinna lögboðnu hlutverki sínu.