Rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:25:16 (1074)

2000-11-01 14:25:16# 126. lþ. 18.1 fundur 104. mál: #A rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Herra forseti. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir til þess að ná fram jafnrétti kynjanna, sem samþykkt var í maí 1998 og gildir til ársloka 2001, eru skilgreind fjögur verkefni sem heyra undir ríkisstjórnina sérstaklega. Eitt þeirra er að skipa nefnd sem leggja muni tillögu að rannsóknarverkefni fyrir ríkisstjórnina um efnahagsleg völd kvenna og karla, þ.e. hvar þau liggi í íslensku samfélagi.

Nú spyr ég hæstv. forsrh. hvort rannsókn þessi hafi farið fram og ef svo er, hverjar séu niðurstöður hennar.

Liggi niðurstöður hennar ekki fyrir spyr ég hæstv. forsrh. á hvaða stigi rannsóknin sé og hvenær niðurstaðna megi vænta.

Herra forseti. Konur hafa sótt fram á flestum sviðum þjóðfélagsins undanfarna áratugi. Margir halda því fram að lagalegu jafnrétti kynjanna hafi verið náð og því sé lítið annað en gera en halla sér aftur og njóta afrakstursins. Staðreyndir eins og viðvarandi launamunur kynjanna og lök staða kvenna á vinnumarkaði tala hins vegar sínu máli.

Íslenskar konur er ekki að finna í helstu forstjóra- og framkvæmdastjórastólum hér á landi. Árið 1998 voru konur 9% stjórnarmanna í 50 stærstu fyrirtækjum landsins. Á lista sem Frjáls verslun birti yfir tekjuhæstu stjórnendur hér á landi á síðasta ári var hlutur kvenna sláandi lítill. Í hópi 200 tekjuhæstu stjórnenda á Íslandi voru, herra forseti, 9 konur af 200. Varla þarf fleiri vitna við.

Lagalegt jafnrétti og stóraukin menntun kvenna hefur ekki fært þeim þann efnahagslega ávinning sem fellur í hlut karla við sömu skilyrði. Því hlýtur rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna og karla að vera forsenda þess að hægt sé með einhverjum hætti að bregðast við og vinda ofan af þessari óheillaþróun.