Rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:29:35 (1076)

2000-11-01 14:29:35# 126. lþ. 18.1 fundur 104. mál: #A rannsókn á efnahagslegum völdum kvenna# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að sú nefnd sem talað er um í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar hafi verið skipuð og vonandi tekur hún fljótlega til starfa. Það er afar mikilvægt, enda þótt fyrir liggi ýmsar upplýsingar, að menn fylgi þeim eftir og tekist sé á við það viðfangsefni jafnréttisbaráttunnar að hver fái að njóta sín og verðleika sinna en fari ekki í fyrir fram gefna ramma vegna kynferðis.

Það er athyglisvert, herra forseti, hvernig konur á vinnumarkaði hafa á síðustu missirum sýnt hve meðvitaðar þær eru um stöðu sína, öfugt við það sem haldið hefur verið fram. Ég vil þar minna á niðurstöðu sem kom úr skoðanakönnun sem grunnskólakennarar gerðu þar sem fram kom að konur í kennarastétt kröfðust hærri launa en karlar --- þetta skiptir máli --- og einnig þá skoðanakönnun sem birt var í gær og leiðir í ljós að mun fleiri konur eru óánægðar með kjör sín en karlar. Þetta, herra forseti, tel ég að sýni að konur eru mun meðvitaðri um kjör sín nú en áður. Að því þarf að hlúa og þess vegna er mikilvægt að könnun eins og þessi sé gerð.