Flutningur á félagslegum verkefnum

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:32:52 (1079)

2000-11-01 14:32:52# 126. lþ. 18.2 fundur 139. mál: #A flutningur á félagslegum verkefnum# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Vorið 1997 skipaði forsrh. starfshóp og fól honum verkefni, annars vegar samkvæmt ályktun Alþingis um að gera úttekt á og skilgreina hvaða stofnanir og verkefni á sviði heilbr.- og trmrn. séu í raun félagsleg verkefni sem heyrðu undir félmrn. og hins vegar að tillögu menntmrh. að fjalla um skiptingu ráðuneyta í þágu fatlaðra. Haldnir voru þrír fundir á árinu þar sem fulltrúar ráðuneyta fóru yfir þau verkefni sem skarast milli ráðuneytanna og brýnt væri að taka á.

Í stuttu máli má nefna þjónustu við einhverfa, þjónustu við geðfatlaða, þjónustu við atferlistruflaða, mál barna og unglinga, þ.e. heimili og stofnanir, útskriftir af Kópavogshæli, framtíðarskipan táknmálstúlkunar, sérfræðiþjónustu í leikskólum og grunnskólum, sérdeildir, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra o.fl.

Erindi bárust nefndinni bæði frá Umsjónarfélagi einhverfra og Félagi heyrnarlausra og teknar voru fyrir skýrslur nefnda sem skipaðar höfðu verið um þessi málefni. Segja má að félagsþjónustukerfið hafi þróast upphaflega innan heilbrigðiskerfisins og skýrir það mikla skörun í viðfangsefnum þeirra enn í dag. Viðvarandi ringulreið er í verkaskiptingunni milli ráðuneyta, félagslegur og jafnvel faglegur aðbúnaður þeirra sem eiga undir högg að sækja geldur fyrir það.

Því miður voru aðeins þrír fundir haldnir í nefndinni fram til ársloka 1997. Ákveðnar aðstæður réttlættu þá töf á fundahöldum um stund, aðstæður sem ég virti fullkomlega en þrátt fyrir eftirgangsmuni voru ekki haldnir fleiri fundir fram til alþingiskosninga en skilja mátti að brátt tæki nefndin til starfa á ný.

Hins vegar lýsti formaður nefndarinnar þeirri skoðun á sl. vetri að ekki væri sjálfgefið að nefndin héldi áfram störfum. Því er spurt hvort forsrh. geri ráð fyrir því að nefndin skili honum tillögum. Ef ekki, er full ástæða til að hér verði upplýst hvers vegna nefnd, skipuð samkvæmt ályktun Alþingis, er svæfð með þessum hætti.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á að nota orðin hæstv. og hv. um ráðherra og þingmenn.)