Meðferð ályktana Alþingis

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:43:42 (1084)

2000-11-01 14:43:42# 126. lþ. 18.3 fundur 140. mál: #A meðferð ályktana Alþingis# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Það fer vel á því að þessi fyrirspurn komi til umræðu í kjölfar þeirrar sem við vorum að enda við að fjalla um. Þegar tillögur frá þingmönnum ná fram að ganga á hv. Alþingi væntum við þingmenn þess að með samþykkt tillögunnar hefjist það ferli sem tillagan gerir ráð fyrir en það er því miður ekki alltaf raunin. Á árum áður voru lagðar fram skýrslur um ályktanir Alþingis en nú er langt um liðið síðan slík skýrsla hefur séð dagsins ljós.

Ég hef orðið mér úti um eina skýrslu um ályktanir Alþingis fyrir árin 1986--1991, þ.e. fyrir 109.--113. löggjafarþing, en vil taka það fram að það er rangt með farið í fyrirspurninni að skýrslur hafi komið fram síðar. Einhver misskilningur hefur verið í upplýsingagjöf þar og að skýrslan er um ályktanir sem fengust samþykktar á viðkomandi þingum en ekki um framkvæmd þeirra. Þingmenn eiga að fylgja ályktunum eftir og fá tækifæri til þess og geta fengið mjög gott tækifæri til þess ef yfirlit yfir samþykktir liggur fyrir í aðgengilegu formi eins og hér er kallað eftir. Hér höfum við rætt um þá nefnd sem sett var á laggir 1997 og síðan heyrðist ekkert af á þriðja ár. Ég er með í höndunum aðra samþykkta tillögu um mikilvægt réttindamál sem flutt var fyrir nokkrum árum eða í maí 1998 um að fela ríkisstjórninni að láta semja reglur um leyfi starfsmanna frá störfum í ríkisþjónustu þegar þeir taka tímabundið við öðrum störfum svo sem hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að eða kjörnum trúnaðarstörfum. Þessi tillaga var flutt að gefnu tilefni og að henni stóðu allir þingflokksformenn, ekkert minna en það. Allir þingflokksformenn sem þá voru á hv. Alþingi. En þetta er aðeins dæmi. Ég hef ekkert frétt um að af þessu hafi orðið, stutt er síðan ég spurði hvort búið væri að setja reglur. Engar reglur hafa verið settar. En hér er ég aðeins að taka dæmi, ekki gera þessa sérstöku þál. að umtalsefni sem slíka. Við eigum að fylgja því eftir af fullum þunga að ályktunum þingsins sé fylgt eftir að framkvæmdarvaldinu og í raun er full ástæða til að þinginu sé gerð grein fyrir ekki bara hvaða þáltill. voru samþykktar á hinu háa Alþingi heldur ekki síður afdrifum ályktana sem það sendi frá sér. Þess vegna hef ég flutt þá fyrirspurn sem hér er sett fram til hæstv. forsrh., hvort hann hyggist leggja fyrir Alþingi skýrslu um framkvæmd ályktana Alþingis eins og gert hefur verið á fyrri þingum en nokkur ár hafa liðið síðan slíkt var gert.