Túlkun jafnréttislaga og skipun í embætti hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:53:44 (1089)

2000-11-01 14:53:44# 126. lþ. 18.7 fundur 33. mál: #A túlkun jafnréttislaga og skipun í embætti hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu hefur ekki, svo að mér sé kunnugt, fullyrt að skipun hæstaréttardómara hafi verið brot á jafnréttislögum né heldur að skipunin hafi farið í bága við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Í útvarpsviðtali við hana sem ég hef aflað mér útskriftar af og var tekið þegar tilkynnt var um skipunina, segir hún að við fyrstu sýn virðist henni að um brot kynni að vera að ræða en áskilur sér allan rétt til að kanna það nánar. Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu hefur m.a. farið á fund dómsmrh. til þess að ræða skipunina.

Önnur spurningin var:

,,Gerði jafnréttisráðherra athugasemd á ríkisstjórnarfundi þegar dómsmálaráðherra kynnti áform sín um skipun hæstaréttardómara?``

Það eru starfshættir í þessari ríkisstjórn að það sem fram fer á ríkisstjórnarfundum er trúnaðarmál og ég mun ekki greina frá orðaskiptum manna þar.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.:

,,Er jafnréttisráðherra sammála þeirri túlkun á jafnréttislögunum að sæki karl og kona með sömu hæfileika og menntun um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er allsráðandi skuli það hljóta starfið sem er af því kyni sem er í minni hluta í starfsgreininni?``

Svar mitt við þessari spurningu er já.